Kvöldskóli Fjölbrautaskóla Suðurnesja
150 manns í kvöldskólanum
Kvöldskóli fjölbrautaskólans er meira en 30 ára gamall og hafa um 1/3 allra Suðurnesjabúa á aldrinum 20-60 ára stundað nám í honum. Sumir hafa tekið eina og eina grein sér til ánægju og aðrir hafa stundað fullt nám eða tekið hluta af fullu námi við kvöldskólann. Nú eru 150 nemendur við nám í kvöldskólanum. Margir eru í meistaranámi, nokkrir í húsasmíðanámi eða grunndeild rafiðna og ýmsir í fullu námi á öðrum brautum eða í einstökum greinum.
Nýtt fyrirkomulag
Nú er hverri önn skipt í 2 lotur sem hver um sig er sjö og hálf vika og nemendur koma tvisvar í viku í kennslustundir. Þegar kennt var í 15 vikna lotum hittu nemendur kennarann aðeins einu sinni í viku og fannst sumum langt á milli kennslustunda. Nú geta nemendur lokið námi í áfanga á rúmlega 7 vikum og farið svo beint í framhaldsáfanga eða í eitthvað allt annað í næstu lotu. Með þessu fyrirkomulagi er komið til móts við þá sem vilja flýta náminu og þá sem finnst betra að hafa stutt á milli kennslustunda.
Innritun að hefjast
Fyrsta október hefst innritun í seinni lotu haustannar og þá geta nýjir nemendur bæst í hópinn. Mælt er með að fólk innriti sig á netinu en allar upplýsingar um það er að finna á www.fss.is . Margir áfangar sem nú verða í boði eru framhaldsáfangar fyrir þá sem þegar eru í skólanum. Það eru margir utan skólans að bíða einmitt eftir þessum áföngum og eru þeir beðnir um að skrá sig sem fyrst því það eykur líkurnar á að hægt verði að kenna þessa áfanga.
Fyrir þá sem vilja byrja í kvöldskólanum
Þið sem ekki hafið verið í kvöldskólanum bendi ég sérstaklega á byrjunaráfanga í spænsku 103, stærðfræði 102, sögu 423 sem er galdrasaga, frönsku 103, þýsku 103, næringarfræði 103, uppeldisfræði 103, heimspeki 103, nát 103 sem er líffræði eða í bókfærsu og hagfræði sem eru byrjunaráfangar á nýjum brautum sem taka 3 ár og kallast verslunar- og skrifstofubrautir. Á þeim brautum verður 10 vikna vinna hluti af náminu.
Mikilvægi kvöldskólans
Kvöldskólinn er mjög mikilvægur fyrir alla þá sem einhverra hluta vegna gátu ekki lokið framhaldsnámi í beinu framhaldi af grunnskóla. Með því að hafa kvöldskóla geta nemendur stundað nám með vinnu, tekið eina grein í einu og haldið áfram í námi á sínum eigin hraða. Það er líka kostur að þurfa ekki að sækja nám til Stór-Reykjavíkur svæðisins því það er bæði dýrt og tímafrekt. Að halda kvöldskólanum hér á svæðinu er því samfélagsleg nauðsyn og ég vil hvetja Suðurnesjabúa til að nýta sér það nám sem hér er í boði.
Að innrita sig tímalega
Það hjálpar mikið til að nemendur innriti sig tímalega, eða á innritunardögum svo að ekki þurfi að fella niður kennslu í áföngum vegna þátttökuleysis. Allar upplýsingar varðandi kvöldskólann er hægt að fá hjá umsjónarmönnum skólans sem eru Elísabet Karlsdóttir s.866- 6549 og Sigrún Eugenio Jónsdóttir s. 899-3709. Nemendur kjósa sér nemendaráð sem er umsjónarmönnum til aðstoðar við innritun og fleira og er það einnig nemendum innan handar eftir þörfum. Í nemendaráði eru nú Dagbjört Ýr Gylfadóttir, Guðrún Sigurjónsdóttir, Marta Haraldsdóttir, Rut Ragnarsdóttir og Svanur Már Skarphéðinsson.
Elísabet Karlsdóttir, umsjónarmaður kvöldskólans