Kvikan - menningarhús Grindvíkinga?
Ég get ekki orða bundist lengur yfir þeirri ákvörðun núverandi bæjarstjórnar Grindavíkur, sem á eftir tvö ár af sínu kjörtímabili, að setja Kvikuna á sölu og sér enga ástæðu til þess að kynna það fyrir bæjarbúum. Mikið var lagt í hönnun og byggingu hússins á sínum tíma og mikill metnaður lagður í sjálfa sýninguna sem heillar alla sem koma og heimsækja okkur. Sögu fortíðar er kastað á glæ og framtíðinni raunar líka með þessari ákvörðun af því að ef húsið verður selt þá verður ekki aftur snúið.
Það er morgunljóst að rekstur á húsi sem er með menningartengda þjónustu kemur sennilega aldrei til með að bera sig, ekki frekar en sundlaug og ýmislegt annað sem bæjarfélög reka. Mér finnst skylda sveitarfélagsins að varðveita söguna og vera stolt af henni og hvernig lífið hér í Grindavík var, bæði fyrir komandi kynslóðir okkar að geta kynnt sér og líka fyrir gesti sem sækja okkur heim.
Margir íbúafundir hafa verið haldnir hér á síðari árum til þess að kynna hin ýmsu skipulög. Þar hafa tli dæmis verið samþykktar tillögur sem af því að Kvikan verði ímiðdepli miðbæjar- og hafnarkjarnans sem minningarhús og samkomustaður og fyrir hinar ýmsu uppákomur, svo sem Sjóarann Síkáta og fleira. Hvað er með þær ákvarðanir núna, er ekkert hægt að taka mark á þeim ákvörðunum sem búið er að taka? Hvað ætlum vi ðað bjóða ferðafólki að sjá í Grindavík varðandi sögu og uppbyggingu bæjarins? Íþróttahúsið og kaffihús?
Ég skora á bæjarstjórn Grindavíkur að halda kynningu fyrir bæjarbúa og athuga hvaða hug þeir bera til Kvikunnar og sýningarinnar áður en það verður um seinan.
Guðbjörg Eyjólfsdóttir