Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Kveikjum á perunni
  • Kveikjum á perunni
Sunnudagur 25. maí 2014 kl. 08:00

Kveikjum á perunni

- 60 milljóna króna sparnaðartækifæri. Kristinn Þór Jakobsson skrifar.

Árið 2009 réðust borgaryfirvöld Los Angeles í að skipta út 140.000 götuljósum úr natríum og kvikasilfurperum í ljóstvista (LED). Markmiðið með verkefninu var 40% orkusparnaður en raunin er 63% minni rafmagnskostnaður við nýju ljósin.

Mississauga borg í Kanada byrjaði í nóvember árið 2012 á 26 milljón CD$ verkefni að breyta götuljósum í ljóstvista. Borgaryfirvöld segjast árlega spara um 6,1 miljón CD$ í raforkukostnað og 2,3 milljónir í viðhaldskostnað. Áætlanir þeirra gera ráð fyrir um 55% orkusparnaði og 20 ára líftíma ljóstvistanna samanborið við 5 ára líftíma venjulegra götuljósa.

Samskip skiptu yfir í ljóstvista í ljóskastara á athafnasvæði sínu í Sundahöfn. Þeir kaupa nú 76% minni raforku fyrir þau ljós en áður.

Eftir þeim upplýsingum sem Framsókn í Reykjanesbæ hefur aflað má gera ráð fyrir að sú fjárfesting sem þarf til að skipta út öllum götuljósaperum 4.165 stk. í Reykjanesbæ borgi sig upp á tæpum tveimur árum.

Kostnaður Reykjanesbæjar vegna götulýsingar árið 2013 var í heildina rúmlega 53 milljónir króna sem skiptast í orkukostnað, um 30 milljónir, og 23,7 milljónir í viðhald sem er m.a. útskipti á perum, stýring á ljósum og allur rekstur á strengjakerfi sem tengist gatnalýsingu. Reykjanesbær á alla strengi, staura og ljósker.

Tafla 1. Hlutfallslegur sparnaður í krónum og fjöldi ára sem tekur að greiða niður fjárfestinguna við ljósaskiptin.


Sparnaður í viðhaldi gæti einnig orðið en ekki eins og í orkukaupum. Ef gert er ráð fyrir a.m.k. 40% sparnaði í viðhaldi þá gera það um 10 milljónir kr. í árlegan sparnað vegna lengri líftíma ljóstvistanna sem bætist þá við orkusparnaðinn og greiðir fjárfestinguna hraðar niður.

Orkunotkun í skólum og öðrum mannvirkjum Reykjanesbæjar
Ekki reyndist unnt að fá nákvæmar upplýsingar um raforkunotkun allra mannvirkja á vegum Reykjanesbæjar nema Heiðarskóla en þar er raforkukostnaður frá nóv. 2012 til okt. 2013 4.369.656 kr. og ef gert er ráð fyrir 40% sparnaði ef skipt er um perur þá sparast um 1,8 milljón kr. árlega.  

Varlega áætlaður sparnaður bæjarfélagsins af því að skipta út hefðbundnum ljósaperum fyrir ljóstvista (LED) gæti því hæglega numið 40-60 milljónum kr. á ári í raforku, en erfitt er að áætla sparnað í viðhaldskostnaði nema hafa nákvæmar tölur. Þegar aðeins þarf að skipta út perum á 15-20 ára fresti í stað 3-4 ára, er augljóst að um gríðarlegan sparnað er að ræða sem vel gæti numið 100-150 milljónum í heildar rekstri bæjarfélagsins. Verkefnið er þess virði að sest sé yfir það og það skoðað.

Kristinn Þór Jakobsson
oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024