Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kveðja frá Stakksfélögum og ferðahópnum
Sunnudagur 10. nóvember 2019 kl. 08:18

Kveðja frá Stakksfélögum og ferðahópnum

Brynjar í Óðni var það nafn sem við kölluðum hann oftast enda kenndur við vélsmiðjuna Óðinn sem hann rak og vann í stórann hluta  lífs síns.  Þegar sá sem þetta ritar kynnist þeim hjónum, höfðum við Brynjar eignast öflugar fjórhjóladrifnar bifreiðar  sem voru notaðar óspart til ferðalaga um óbyggðir Íslands. Þau Brynjar og Jóhanna ásamt börnum voru afar dugleg við að stunda slíkar ferðir og njóta. Ég minnist ótal ferða norður fyrir Hofsjökul í Ásbjarnarvötn, suður Sprengisand til Veiðivatna og þaðan yfir Hófsvað til  Landmannalauga.  Til slíkra ferða þurfti traustar bifreiðar og trausta stjórnendur sem ekki voru ragir við að takast á við fjölbreytt, viðfangsefni og áskoranir sem ferðir um lítt og ókannað hálendi Íslands voru. Þar voru þau Brynjar og Jóhanna á réttum stað.  Suðurnesjafólk  var orðið ansi þekkt í þeim þrönga hópi ferðalanga sem fór slíkar ferðir á þeim tíma en þar  voru áberandi, Brynjar, Knútur Höiriis ásamt undirrituðum sem allir áttu traustar fjallabifreiðir sem báru sama litinn og var því eftir þeim tekið  hvar sem þeir fóru.  Þetta voru góðir og ánægjulegir tímar með glöðu og skemmtilegu fólki.  Það er freistandi að minnast  einstakra ferða eins og þegar kabyssan í Landmannalaugum  leitaði útrásar  eða páskaferðanna í Öræfasveitina þar sem mörg óvænt og spennandi ævintýri biðu okkar. Brynjar var einn stofnanda Björgunarsveitarinnar Stakkur þar sem hann og Jóhanna  störfuðu í af miklum krafti. Á mörgum ferða okkar um óbyggðirnar, mest að sumarlagi vorum við oft búin að hugsa um hvernig við gætum notið þess að ferðast þar um einnig að vetri til. Það fór svo að hópur samrýmdra ferðafélaga stofnuðu  félagsskap um kaup á snjóbíl, fyrst einum en síðar öðrum . Brynjar sá um og smíðaði sleða fyrir báða snjóbílana,  til aðseturs í slíkum ferðum. Það tímabil var okkur mikill gleðigjafi, páskaferðir í Landmannalaugar og víðar með fjölskyldum og vinum voru afar ánægjulegar. Hópur ferða og björgunarsveitafélaga tók sig saman eftir gott starf innan björgunarsveitarinnar um að stofna ferðahóp til að viðhalda tengslum og minningum um þá góðu tíma. Þar létu  þau Brynjar og Jóhanna  sitt ekki eftir liggja. Hópurinn kallar sig 1313 og hefur haldið sambandi í 36 ár.

Það er erfitt að kveðja góða vini og félaga eftir ánægjulegt samstarf til margra ára.  Samstarf sem byggst hafði á trausti og áreiðanleika þar sem oft reyndi á þolinmæði og útsjónarsemi þegar við lentum í erfiðum og óvæntum aðstæðum. Þá var gott að hafa þau Brynjar og Jóhönnu í hópnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við félagar þeirra í fjallaferðum og björgunarstarfi þökkum Brynjari samfylgdina af heilum hug og munum sakna hans með djúpu þakklæti fyrir samstarfið, ánægjuna og ljúfmennskuna  sem fylgdi honum í öllum okkar ferðum. Okkar dýpsta samúð er hjá Jóhönnu, börnum þeirra og fjölskyldum.

Brynjar, góða ferð á hverjar þær slóðir sem þú ert lagður á og  kæra þökk fyrir samfylgdina.

Fh. Félaga í Björgunarsveitinni Stakkur og Ferðahópsins 1313.

Garðar Sigurðsson.