Aðsent

Krónan er eins og korktappi
Föstudagur 28. október 2016 kl. 08:00

Krónan er eins og korktappi

- Aðsend grein frá Ingunni Guðmundsdóttur

Einhver líkti krónunni okkar einhverju sinni við korktappa í ólgusjó fjármálaumhverfisins og stóru gjaldmiðlunum við stórskip með siglingarhæfni til að mæta mismunandi veðrum. Á Íslandi upplifum við núna ágæta tíma með þokkalegum kaupmætti og lágri verðbólgu. En ef við lítum út fyrir túnfótinn sjáum við að krónan hefur risið óþægilega mikið gagnvart erlendum gjaldmiðlum og það veldur útflutnings atvinnugreinunum vanda eins og staðfest var í fréttum fyrir nokkrum dögum. Framkvæmdastjóri hátæknifyrirtækisins Nox Medical lýsti því að fyrirtækið glímdi við 20% verðbólgu vegna stöðu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Keppinautar fyrirtækisins í öðrum löndum búa við allt annað og betra rekstrarumhverfi. Ísland er ekki samkeppnishæft vegna þess hvað krónan sveiflast.


Lækkum greiðslubyrði um tugi þúsunda
Sveiflurnar tengjast líka fjármálum einstaklinga og birtast í vaxtaokrinu. Verðtryggingin er séríslenskt fyrirbæri. Samanburður við önnur lönd verður að miðast við óverðtryggð lán. Fyrir skömmu skrifaði ungur Íslendingur grein um breytta stöðu sína eftir að hafa flutt til Svíþjóðar. Húsnæðislánið sitt fékk hann í venjulegum banka á 2% vöxtum án verðtryggingar. Sá sem tekur óverðtryggt lán á Íslandi greiðir næstum fjórfalda þá vexti. Ég tek dæmi af íslenskum banka sem býður óverðtryggt húsnæðislán með 7,3% vöxtum. Sá sem tæki 20 milljóna lán á þeim kjörum til 25 ára með jöfnum mánaðargreiðslum væri að greiða 145 þúsund krónur á mánuði. Á sama tíma væri skuldarinn í Svíþjóð að greiða 85 þúsund. Munurinn er 60 þúsund! Miðað við lægra skattþrep á Íslandi þyrfti launatekjur upp á 90 þúsund til að fjármagna þennan mun. Þetta er eitthvað sem alla munar um.

Public deli
Public deli



Myndin sýnir hvernig vaxtakjör húsnæðislána eru í nokkrum löndum.

Myntráð virkar
Viðreisn vill festa krónuna við annan gjaldmiðil til að hún hætti að sveiflast eins og korktappi. Það fyrirkomulag byggir á tillögu Seðlabankans um Myntráð sem hann telur að virki til að ná stöðugleika og í beinu framhaldi lægri vöxtum. Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki sýnt áhuga á að fara þessa leið og bæta kjör almennings og fyrirtækja í landinu. Það hlýtur því að vera öllum fyrir bestu að þeir fái frí. Viðreisn er X-C.

Ingunn Guðmundsdóttir viðskiptafræðingur
Er búsett á Selfossi og skipar þriðja sæti fyrir Viðreisn í Suðurkjördæmi