Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 15. apríl 1999 kl. 13:00

KRISTJAN PÁLSSON SKRIFAR: REYKJANESBRAUTIN ER FORGANGSVERKEFNI

Fyrir síðustu kosningar gáfu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi það kosningaloforð að lýsa Reykjanesbrautina og koma tvöföldun hennar inn á vegaáætlun. Eins og allir vita þá var Reykjanesbrautin lýst strax á öðru ári kjörtímabilsins og hefur sú framkvæmd ásamt öðrum lagfæringum á brautinni skilað miklum árangri í fækkun slysa. Langtímaáætlun í vegagerð sem samþykkt var á Alþingi sl. haust gerir ráð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá Kópavogi til Reykjanesbæjar og er það eina stóra nýframkvæmdin á langtímaáætluninni. Tvöföldun á næsta kjörtímabili Framkvæmdin kostar um 7 milljarða króna samkvæmt áætluninni með mislægum gatnamótum og breytingum. Leiðin frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar þarf að fá meiri forgang en áætlunin gerir ráð fyrir vegna þeirra alvarlegu slysa sem þar verða. Staðreyndin er sú að þessi braut er ekki hönnuð sem hraðbraut og framúrakstur því mjög varhugaverður. Fjöldinn allur af blindhæðum og beygjum skapa þar mikla hættu og spenna upp hraðann þegar framúrakstur er hugsanlegur. Þetta hefur orsakað mjög alvarleg slys á brautinni eins og dæmin sanna. Dauðaslysin á þessari leið eru orðin 44 frá því brautin var lögð og sorglegt til þess að vita hvað margir hafa misst ástvini sína á þessum vegi. Það er því mjög brýnt að Reykjanesbrautin fái enn meiri forgang, það er mögulegt eftir að verkefnið komst inn á vegaáætlun og er þar með viðurkennt sem opinber framkvæmd. Vesturlands- og Suðurstrandavegur Tvær mikilvægar vegaframkvæmdir þurfa að komast á vegaáætlun á næsta kjörtímabili en það er tvöföldun Vesturlandsvegar upp í Mosfellsbæ og vegur frá Reykjanesbær til Grindavíkur og Þorlákshafnar svonefndur Suðurstrandavegur. Leiðin upp í Mosfellsbæ er þegar komin á tíma þó ýmsar úrbætur séu á næsta leiti eins og tvöföldun að Víknavegi. Vegurinn ber einfaldlega ekki lengur þá umferð sem er á leiðinni um 12 þúsund bílar á dag. Suðurstrandavegur er öryggis og ferðavegur ásamt því að tengja saman nýtt kjördæmi Suðurkjördæmi A sem verður til við kjördæmabreytinguna eftir 4 ár þegar Suðurnes og Suðurland verða eitt og sama kjördæmið. Þar er um samstarfsverkefni þingmanna Reykjanes- og Suðurlandskjördæma að ræða. Það hefur verið sagt að reynslan sé ólygnust. Ef litið er til reynslunnar þá sýnir hún, svo ekki verður um villst, að sjálfstæðismönnum er best treystandi til að leiða þessi mál til lykta. Kristján Pálsson alþingismaður og á sæti í samgöngunefnd Alþingis.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024