Kristján Pálsson bjartsýnn
Samkvæmt könnun Gallup sem greint var frá í ríkissjónvarpinu í kvöld fær T-listi, framboðs óháðra í Suðurkjördæmi 0,4% fylgi á landsvísu. Í Gallup könnun í gær fékk T-listinn 0,3%. Kristján Pálsson efsti maður á T-listanum sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri sannfærður um að T-listinn ætti meira fylgi en fram kemur í þessari könnun. „Við trúum ekki öðru en að allt það fólk sem segist ætla að kjósa okkur geri það. Við erum alveg kristalklár á því að við munum hafa inn mann á laugardaginn þó svo kannanir séu okkur ekki hagstæðar þessa stundina. Það má heldur ekki gleyma því að allar kannanir sem verið er að birta um okkur á landsvísu eru að sýna miklu minna fylgi en við erum með í kjördæminu. Við höfum verið að mælast með allt upp í 8% fylgi í kjördæminu sem þýðir innan við 1% á landsvísu.“Könnunin var gerð dagana 3.-5. maí, úrtakið var 1.500 manns, 18 ára og eldri valið af tilviljun úr þjóðskrá og svarhlutfall var 65,4%.