Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kraftaverk á Skjálfandaflóa í mars 1975
Miðvikudagur 7. mars 2018 kl. 09:38

Kraftaverk á Skjálfandaflóa í mars 1975

Klukkan er 4 að morgni 7. mars og það voru langir klukkutímar framundan. Ég var kominn á vaktina uppí brú og þar var fyrir 3 stýrimaður. Hann átti að standa til kl.6 þar sem að eingöngu voru umborð 2 stýrimenn þar sem einn fór í land á Akureyri. Hvassafellið sem átti heimahöfn á Akureyri var fallegt skip og nýjasta skip Sambandsins. Svo var það nýmálað eftir slippferð í Kiel en þangað fórum við eftir strand á eyju fyrir utan Kotka í Finnlandi. Það strand var barnaskapur miðað við það sem okkar beið.
 
4-8 vaktin skúraði og gerði klárt fyrir komandi morgun þegar dagliðið var vakið um 7 leytið. Þennan morgun var leiðindarbræla og veltingur,snjókoma og í raun var aftakaveður, norð-austan 12 vindstig.
 
Það voru því frekar ómarkviss handtökin við skúringar og hálfgerður kattarþvottur á handbragði 17 ára gamals stráks sem mátti þakka fyrir að geta bara skriðið um skipið. Ég gafst uppá þessu og var bara uppí brú eftir kl.5. Stýrimanninn þekkti ég nokkuð vel, við hittumst fyrst umborð í Arnarfellinu árið 1971 þegar ég fékk að vinna fyrir farinu til Danmerkur að hitta mína dönsku föðurfjölskyldu. Ég fékk að skræla kartöflur,vaska upp og skúra umborð.
 
Eftir 6 vikur í Danmörku í sveitinni fögru úti á Jótlandi þar sem að frændgarðurinn danski ræktaði svín og átti stórjarðir sem þurfti að slá og hirða kom að heimför og gerði ég það sama til að komast heim. Líklega var það þarna umborð sem ég fékk að kynnast alvöru lífsins aðeins 14 ára gamall. Þarna voru engir kórdrengir sem lásu bara bækur á milli vakta né hafna. Það var oft verið að sulla í bjór og þarna sat ég með þeim og drakk danskt límonaði og hlustaði á sögur, framandi sögur. Svo sigldum við saman marga mánuði og líklega áttum við saman 2 ár og margar vaktir saman og tókst með okkur ágætis vinskapur. Í klefa stýrimannsins svaf barnshafandi konan hans en hún kom umborð á Akureyri daginn áður. Hún var komin 6 mánuði á leið. Einnig komu konur skipstjórans og kokksins umborð. Hvassafellið var búið að vera 3 mánuði í þessum túr og strand við Finnland.


 
Hvar er vitinn í Flatey spurði ég stýrimanninn, klukkan var að slá í hálfsex og hann skildi ekkert í þessu að það sást hvorki ljós né nokkuð sem gæti gefið til kynna að Flatey væri þarna í sortanum. Kompás sýndi 91 gráðu og veltingurinn var mikill. Við kveiktum á ískösturunum og þá gerðum við okkur grein fyrir því að ísing var mikil og áhlaðandi á öllu skipinu, þar með talið á radar og öllum gertum,vírum og loftnetum. Svo slökkvum við ljósin og störðum útí sortann. Hann leit varla uppúr radarnum en ég rýndi af öllum mætti bakborðsmegin uppí snjómugguna klukkan er 0535 og ALLT í einu öskraði ég og þá reið þessi svaka brotsjór á hvalbakinn þannig að skipið tókst allt á loft að mér fannst, lagðist á hliðina og lætin og ringulreiðin uppí brú var algjör,ég hentist yfir öll stjórntækin,lenti fyrir aftan hurðina stjórnborðsmegin, stýrimaðurinn var fyrir framan hurðina og í fanginu hans var gúmmistykkið sem er á radarnum en radarinn var stjórnborðsmegin í brúnni.
 
Kaffibrúsinn, könnurnar, siglingakortin, kíkirinn og allt þetta sem notað er uppí brú flaug um brúnna. Í öllu þessum látum er vélin á fullu og skyndilega er allt annað hljóð í skrokknum. Skipið hafði snúist heilar 153 gráður og keyrði á fullri ferð einhverjar skipslengdir áður en að allt var stop. Okkur tekst að standa upp og ég opna hurðina út á brúarvænginn bakborðsmegin og viti menn, það er fjara þarna sem ég sé þegar ég leit út fyrir vænginn. Stýrimaðurinn rífur í telegrafið og setur á stopp. Hann skipar mér niður að ræsa skipstjórann og þegar ég er á leið niður stigann kemur eitt brot aftan á skipið og kastar því enn lengra eftir fjöruborðinu. Ég hentist upp nokkrar tröppur og komst að lokum til skipstjórans. 

 
Þarna lá hann alblóðugur á gólfinu og konan einnig en hann hafði skorið sig á handleggnum á skúffu sem var við rúmið hans. Hann fór uppí brú en ég sagði honum að við værum strandaðir, ég fór niður til að huga að mannskapnum sem var að koma út úr herbergjum sínum, sumir villuráfandi rifnir upp úr svefni og vissu hvorki í þennan heim né annan. Einn hélt á sparifötunum sínum sem voru á herðatré með poka utan um. Hann hafði keypt sér þessi fínu föt í Kíel. Bátsmaðurinn var alveg brjálaður og öskraði út um allt,getið þið ekki siglt þessum helvítis dalli á milli tveggja landa nema að fara uppá þær eyjur sem eru í siglingaleiðinni. Þarna voru menn alveg að átta sig á því að skipið var strandað en hvar, það var spurningin. Alls staðar þar sem maður leit umborð var eitthvað á lausu, hafði kastast út úr einhverjum skápum,hillum eða Guð má vita hvaðan það kom. Eldhúsið var eins og eftir loftáras, hillurnar með diskunum höfðu brotnað af veggjunum og voru útum allt. Það var haldin neyðarfundur umborð og allir fengu einhver hlutverk, mitt var að reyna að koma eldhúsinu í eitthvert stand og hjálpa kokknum að útbúa einhvern mat fyrir mannskapinn. Samlokur og ávextir urðu svo á boðstólnum. Konurnar 3 sem voru með okkur báru sig nú nokkuð vel, þær hlúðu að hver annarri.
 
Erfiðlega gekk að senda út neyðarkall og var engin árangur af því strax.Kom þá í ljós að loftnetin voru slitin niður.Ekki þótti gæfulegt að vera utandyra sökum veðurs svo að áhöfnin var bara inni. Það var búið að drepa á öllum vélum og ekkert ljós því umborð.Klukkan er orðin 6 og ekkert gengur að ná í neinn.Þá heyrist í skuttogaranum Dagný frá Siglufirði og hann fær það hlutverk að koma skilaboðum að Hvassafellið sé strandað í Flatey á Skjálfanda, áhöfnin sé heil á húfi og engin slasaður.

 
Hann hafði samband við afgreiðslumann Sambandsins á Húsavík og eftir það fóru hjólin að snúast um björgunaraðgerðir. Ég man alltaf eftir því hvernig mér leið þegar þessi frétt kom, ég hugsaði með mér að ég skildi láta sjómennskuna á hilluna og hugsa um eitthvað annað.Ég átti mótorhjól heima í Keflavík, Hondu 350. Sú skildi fá aldeilis rúntinn fljótlega. 
 
Smá saman komst ró yfir mannskapinn, allir gerðu sitt besta um að taka því sem koma skildi, það voru björgunarsveitarmenn að koma. Ég hugsaði með mér hvernig í veröldinni komast þeir hingað, brim og boðaföll um alla sjóa og veðrið mjög slæmt.
 
Birtist allt í einu Björgunarsveitin Garðar frá Húsavík og allt er sett í ferli. Við skjótum til þeirra línu. Þeir setja upp þrífótinn og þá kemur í ljós að björgunarstóllinn hafði gleymst. Tveir menn hlupu yfir eyjuna og náðu í stólinn. Líklegast er klukkan þarna um 2 eftir hádegið. Umborð um morgunin hafði ég tekið í litla tösku það sem ég mátti taka með mér, passann, sjóferðabókina og eitthvað svona smá persónulegt dót,allt annað sem ég átti í herberginu mínu skildi ég eftir. Pakkaði þessu samviskusamlega saman í sjóferðapokann og stereógræjurnar skildi ég eftir á sínum stað í hillunni og í hátalaraboxunum voru falin nokkur sígarettukarton. Ég skildi bjórinn og brennivínið líka eftir, sem seinna var síðan gefið björgunarsveitarmönnunum en mér skilst að allt tollskylt sem var umborð hafi verið gefið til björgunarsveitarmanna og þeirra sem komu að því að bjarga okkur.
 
Ég var númer 6 sem var hífður í land, þetta gekk eins og í sögu og þegar nær allir voru komnir í land var lagt afstað yfir eyjuna.  3 menn voru skildir eftir en komu seinna, mig minnir daginn eftir. Fremstur var björgunarsveitarmaður og var gengið eftir einhverjum garði að ég man en það var sumstaðar hnédjúpur snjór svo að þetta var bæði erfitt og seinfarið. Allir gengu í röð og á undan mér var kokkurinn og konan hans. 
 
Skyndilega birtist þarna í öllu snjókófinu naut og stefni á okkur, ég kallaði á konu kokksins sem öskraði svo hátt að nautið fékk sjokk og hvarf og sást ekki framar. Þegar við komumst yfir eyjuna man ég mjög vel að við fórum inní hús sem hafði verið verslun þarna, gott ef það var ekki kallað Kaupfélagið. Þarna var beðið eftir að allur mannskapurinn var kominn saman. Núna tók við að ferja mannskapinn, alls 16 manns, útí bátana tvo sem höfðu komið með björgunarsveitarmennina útí eyjuna. Notaðir voru slöngubátar og fór ég í bátinn Jón Sör. 
 
Þegar við komum til Húsavíkur var farið með mannskapinn uppí Kaupfélag bæjarins og þar fengum við hlý og þurr föt og vorum síðan flutt á nýtt hótel á staðnum. Við vorum í góðu yfirlæti Húsvíkinga í 2-3 daga áður en að veðrinu slotaði og það var flugfært til Reykjavíkur. 
 
Ég held alltaf sérstaklega uppá 7. mars ár hvert en það er dagurinn sem Kraftaverkið á Skjálfandaflóa átti sér stað og heil áhöfn fékk annað tækifæri á að njóta lífsins. 
 
Hafið kærar þakkir kæru Húsvíkingar, Björgunarsveitin Garðar og áhafnarmeðlimir á Jón Sör (Pétur Olgeirsson) og áhöfnin á hinum bátnum sem ég man ekki hvað hét núna. Þið eruð hetjurnar okkar allra sem vorum áhöfn Hvassafells og eiginkonurnar þrjár sem voru með okkur þennan örlagaríka dag, 7. mars 1975.
 
Þið lengi lifið.
 
Kær kveðja,
Tómas J. Knútsson

 
Tómas Knútsson og Pétur Olgeirsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024