Köstum krónunni!
Íslenska krónan er ónýtur gjaldmiðill og henni verðum við að skipta út fyrir alvöru peninga eins fljótt og hægt er.
Frá 1944 hafa íslendingar haldið úti örgjaldmiðlinum íslensku krónunni. Í upphafi var hún jafngild þeirri dönsku. Nú, 65 árum síðar, þrufum við að greiða ríflega 22 íslenskar krónur fyrir eina danska. Árið 1981 hafði verðbólgan rýrt vægi gjaldmiðilsins okkar svo mikið að íslendingar ákváðu að taka tvö núll af krónunni. Sé það tekið inn í reikninginn má sjá að ein dönsk króna jafngildir nú 2257 gömlum krónum (miðað við skráð gengi Seðlabankans 12. apríl 2008). Verðgildi íslensku krónunnar er því innan við einn tvöþúsundasta af því sem hún var 1944 í samanburði við þá dönsku.
Gjaldmiðlum heimsins fer fækkandi og því hefur verið spáð að nokkrum áratugum liðnum noti heimsbyggðin aðeins fjóra til fimm gjaldmiðla. Afar ólíklegt er að íslenska krónan verði ein þeirra og reyndar ekki sú danska heldur. Því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir því að krónan er ónýtur gjaldmiðill sem hefur kostað okkur alltof mikið nú þegar, því betra. Íslenskur fjármálamarkaður er of lítill fyrir sjálfstæða mynt. Það hefur reynst okkur afar dýrt að reyna að verja verðgildi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og hefur auk þess mistekist hrapalega.
Borgarahreyfingin hefur lagt til að leitað verði leiða til að leysa myntvanda Íslands með myntbandalagi við aðrar þjóðir eða ef með þarf með einhliða upptöku annars gjaldmiðils. Það myndi einnig losa okkur úr viðjum ofurvaxta og verðtryggingarinnar sem draga íslensk heimili og fyrirtæki niður í skuldafenið.
Margrét Tryggvadóttir