Kosningaspá í Suðurnesjabæ 2022
Frá unga aldri hefur áhugi minn á pólitík verið til staðar. Fjölskylda mín var Alþýðuflokksfólk og afi minn og nafni, Halldór Friðjónsson frá Sandi í Aðaldal, var meðal annars ritstjóri Alþýðumannsins á Akureyri. Fyrir alþingiskosningar haustið 1959 fór ég með félaga mínum, sem síðar varð alþingismaður fyrir Borgaraflokk Alberts Guðmundssonar, í Valhöll sem þá var við Suðurgötu í Reykjavík. Við fengum kók og prins póló og tókum svo nokkra kosningabæklinga með okkur til að bera út. Við styttum okkur leið í gegnum Hólavallakirkjugarð og þar dreifðum við nokkrum bæklingum en félagi minn sagði að þarna væri mikið af kommum og framsóknarmönnum sem þyrftu að kynna sér stefnu Sjálfstæðisflokksins þó seint væri. Síðar komst ég að því að þessi félagi minn, sem var mikill prakkari, hafði skráð mig í Sjálfstæðisflokkinn.
Eftir að ég flutti til Sandgerðis tók ég þátt í vinnu fyrir K – lista óháðra borgara árið 1966 en þá var ég nítján ára gamall og ekki kominn með kosningarétt, sem þá miðaðist við 21 árs aldur. Allar götur síðan vann ég með K-listanum í sveitarstjórnarkosningum í Sandgerði og var ég í hreppsnefnd frá miðju kjörtímabili 1976 til vorsins 1986. K-listinn, Óháðir borgarar, bauð fram með Alþýðuflokki og síðar Samfylkingu og fagnaði góðu gengi alla tíð og náði þrisvar hreinum meirihluta í bæjarstjórn, þ.e. árin 1994, 1998 og 2010.
Enn á ný er komið að því að kjósa til sveitarstjórnar. Fyrsta kjörtímabili í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis, Suðurnesjabæ, er að ljúka og nýleg úttekt sem gerð hefur verið sýnir að ýmislegt hefur tekist vel en mörg mikilvæg verkefni bíða úrlausnar fyrir nýja bæjarstjórn. Nú liggur það fyrir að íbúar með kosningarétt í Suðurnesjabæ geta valið á milli fjögurra framboðslista sem eru B-listi Framsóknar, D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra, O-listi Bæjarlistafólks og S-listi Samfylkingar og óháðra. Það er nokkuð ljóst að framundan eru spennandi tímar og ýmsir velta því fyrir sér hvernig úrslit geta orðið. Ég hef stundum reynt að spá eða giska og verð að játa að stöku sinnum hafa úrslit farið á annan veg en ég hélt. En hvað um það, nú ætla ég enn og aftur að gerast spámaður um úrslit kosninga í Suðurnesjabæ og svo kemur bara í ljós 14. maí hvernig gekk.
B-listi Framsóknar
Mikil endurnýjun er á listanum frá kosningunum 2018 og sýnist mér að fjórtán nýir frambjóðendur séu á listanum núna. Þau sem voru í fimm efstu sætum 2018 eru ekki með núna. Nýtt fólk er í forystu og meðalaldur frambjóðenda í efstu sætum er innan við 30 ár. Í fyrsta sæti er Anton Guðmundsson, í öðru sæti er Úrsúla María Guðjónsdóttir, Sunneva Ósk Þóroddsdóttir skipar þriðja sætið og í fjórða sæti er Sigfríður Ólafsdóttir. Nokkrir frambjóðendur hækka svo meðalaldurinn og þar er elstur meistari Jón bóndi sem prýðir heiðurssætið. Á listanum má sjá nöfn sem mögulega gætu valdið óróa hjá gömlum framliðnum kempum í pólitík frá fyrri tíð eins og einhver orðaði það. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengi þessa framsóknarframboðs verður.
Mín spá er að B - listinn fái tvo fulltrúa í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar 2022.
D-listi Sjálfstæðisflokks og óháðra
Fréttatilkynning birtist okkur bæjarbúum í Víkurfréttum um að D-listinn og H-listi Magnúsar Magnússonar hefðu sameinast og nú væri Magnús loksins kominn heim aftur en hann hafði sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn eftir að hafa tapað í prófkjöri árið 2010. Maður átti helst von á því að allir mundu gleðjast við þessa sameiningu en gleðin og hamingjan stóðu stutt. Nokkrir sjálfstæðismenn í Garðinum sættu sig ekki við þessa endurkomu Magnúsar og blésu í sönglúðra með miklum látum og gerðust bæjarlistamenn. Einar Jón og Magnús skiptu efstu sætum listans bróðurlega milli sín og sinna fylgjenda. Einar í fyrsta sæti hefur verið í bæjarstjórn í Garði og Suðurnesjabæ í tuttugu ár. Magnús er í öðru sæti en hann hefur verið tólf ár í bæjarstjórn í Sandgerði og Suðurnesjabæ. Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir skipar þriðja sæti listans og Svavar Grétarsson fjórða sætið. Rætt er um að klofningur D-listans nú muni hafa áhrif á gengið í kosningunum en kannski verður það minna en ætla má miðað við aðstæður.
Mín spá er að D-listinn fái þrjá fulltrúa í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar 2022.
O-listi Bæjarlistafólks
Eins og fram hefur komið virðast sjálfstæðismenn í Garðinum mjög ósáttir með endurkomu Magnúsar Magnússonar og er þetta klofningsframboð bæjarlistans sagt tilkomið vegna þess. Á listanum eru fjórtán fulltrúar með lögheimili í Garði en fjórir í Sandgerði. Fjórir efstu menn bæjarlistans eru óánægðir sjálfstæðismenn úr Garðinum en kannski spurning hvar Laufey Erlendsdóttir sem skipar annað sæti listans vill flokka sig pólitískt en hún hefur boðið sig fram fyrir fjóra mismunandi flokka frá árinu 2002. Laufey, Jón Ragnar Ástþórsson sem skipar þriðja sætið og Haraldur Helgason sem skipar fjórða sætið eru öll í Hafnarráði en Magnús gagnrýndi mjög harkalega ráðningu hafnarstjóra sem þau meðal annarra stóðu að, sem mögulega skýrir óánægju þeirra. Jónína Magnúsdóttir skipar fyrsta sæti listans og var hún í bæjarstjórn fyrir D-listann í Garði kjörtímabilið 2014–2018.
Mín spá er að O-listinn fái einn fulltrúa í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar 2022.
S-listi Samfylkingar og óháðra
Framboð S - listans var tilkynnt daginn áður en framboðsfrestur rann út. S-listinn er í meirihluta í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar með D-listanum á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Talsverðar breytingar hafa orðið á listanum frá kosningunum 2018 og þar er komið nýtt fólk í forystusætin. Árið 2018 bauð Samfylking fram undir merkjum J-lista. Ólafur Þór Ólafsson sem var í forystu listans tók að sér starf sveitarstjóra á Tálknafirði. Sá sem tekur við forystusætinu nú er Sigursveinn Bjarni Jónsson en hann átti sæti í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar frá árinu 2010 til 2018. Í öðru sæti er Elín Frímannsdóttir, í þriðja sæti er Önundur Björnsson og fjórða sætið skipar Hlynur Þór Valsson.
Mín spá er að S-listinn fái þrjá fulltrúa í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar 2022.
Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu og ef spáin mín rætist, hef ég ákveðnar hugmyndir um hvernig meirihluti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar 2022–2026 gæti verið skipaður. Það er sannarlega von mín að í bæjarstjórn veljist fólk sem kann og getur stjórnað bæjarfélaginu vel. Eins og áður er getið, er nýleg úttekt sem sýnir að mörgu þarf að breyta til betri vegar, ekki síst þarf að gæta aðhalds á ýmsum sviðum. Þar má meðal annars nefna að starfsmannakostnaður hefur aukist umtalsvert síðastliðin ár og er nú orðinn yfir 50% af heildartekjum bæjarins. Það er auðvelt að fara óvarlega með fjármuni sem maður á ekki sjálfur. Það er líka auðvelt að taka lán sem maður þarf ekki sjálfur að borga. Að gæta ráðdeildar og hagsýni eru aðalsmerki hvers stjórnanda. Hér er linkur á úttektina: https://www.sudurnesjabaer.is/static/files/PDF/hlh.skyrsla-220920.lokaeintak.pdf
Góðar kveðjur, Jón Norðfjörð,
fyrrverandi sveitarstjórnarfulltrúi.