Kosningaloforð íbúanna
– Haukur Hilmarsson skrifar
Þegar líður að kosningum fara framboðsflokkar og allt það ágæta fólk sem þá fyllir að keppast við að segja okkur áhorfendum og kjósendum hvað sé gott og hvað sé okkur ekki fyrir bestu. Öll þessi umræða er holl og góð fyrir samfélagið og öll gagnrýni heldur okkur vakandi gagnvart því sem er að gerast í samfélaginu.
Vinnu minnar vegna fæ ég innsýn í daglegar aðstæður fólks í Reykjanesbæ. Ég fæ að hitta fólk sem er að upplifa óþægilega og erfiða tíma. Atvinnuleysi, fjármagnsskortur, skuldir og jafnvel heilsuleysi er smátt og smátt að draga úr fólki kraft og von. Til eru dæmi þess að tekjur fólks dugi ekki til mánaðamóta. Á móti hitti ég líka fólk sem hefur það gott, hefur efni á sumarleyfum, getur keypt sér gott í matinn, föt og skó, og jafnvel endurnýjað bílinn. Allt þetta fólk á það sameiginlegt að búa í sama bæjarfélaginu, jafnvel sömu götunni eða í sama stigagangi, en lifir samt eins og í tveim ólíkum heimum. Það er þarna sem ég vil að við finnum okkar eigin kosningaloforð.
Við búum nefnilega ekki lengur í samfélagi þar sem nóg er að hafa fyrir alla. Við búum á tímum þar sem við þurfum að opna augun og sjá umhverfi okkar, ekki eins og það var eða eins og það ætti að vera, heldur eins og það raunverulega er. Aðstæður á Suðurnesjum eru orðnar slíkar að við þurfum ekki lengur að vera feimin við stöðu okkar eða skuldir. Erfiðleikarnir eru orðnir það almennir að við ættum ekki að líta á frændfólk og vini sem grey sem illa standa heldur væri eðlilegra að bjóða þeim í mat, gefa notuð föt, og styðja almennt sem vini. Það á að vera tilgangslaust að flokka okkur eftir efnum. Við eigum þess í stað að horfa á gæði fólksins í kringum okkur.
Stærsta eign Reykjanesbæjar eru íbúarnir sem hér búa. Þar býr meiri hagnaðarvon en nokkur stjórnmálamaður getur ímyndað sér.
Það sem ég geri til að bæta samfélagið mitt er að ég bíð ekki eftir að einhver rétti upp hönd og biðji um hjálp. Ég læt mig skipta máli. Ég er til dæmis með afsláttarlykil fyrir eldsneyti og þegar ég kaupi eldsneyti býð ég einhverjum á næstu dælu líka afslátt. Innan fjölskyldunnar ganga notuð föt á milli manna auk þess sem við gefum föt og skó af okkur til Fjölskylduhjálpar. Ég hef gefið vinnu mína og hjálpað ókunnugu fólki að snúa fjárhag sínum, þótt lítill sé, úr óreiðu í skipulag. Ég hef verið sjálfboðaliði í Virkjun og líka staðið vaktir í Dagsetri Hjálpræðishersins. Ég býð ókunnugum góðan dag hvar sem ég mæti þeim og ég gef mér tíma til að tala vel um bæinn minn á Facebook og meðal fólks. Allar þessar gjafir til samfélagsins kosta mig sjaldnast meira en fyrirhöfnina.
Ef við skoðum umhverfi okkar og daglegt líf þá getum við fundið fjöldann allan af litlum gjöfum og stuðningi til að gefa hvert öðru. Bæði innan fjölskyldunnar og úti meðal ókunnugra í samfélaginu. Tengdu saman tvo ókunnuga og einhver gæti fengið vinnu. Kauptu auka mjólk og brauð og farðu með það í Fjölskylduhjálp. Gefðu einhverjum tímann þinn og hlustaðu á hvernig hann hefur það.
Ég legg til að við hættum feluleiknum og sýndarmennskunni og hættum að flokka okkur eftir aðstæðum. Hættum að hugsa eins og annarra líf komi okkur ekki við. Stærstu vandamál íbúa Suðurnesja eru ekki handa pólitíkusum heldur verkefni handa okkur íbúunum í samfélaginu. Fjölskyldur, vinir og ókunnugir vilja styðja hvort annað. Ég held það sé bara enginn að segja það upphátt.
Heilsaðu mér næst þegar þú sérð mig.
Haukur Hilmarsson
Ráðgjafi og íbúi í Reykjanesbæ