Kosningahvati - fleiri mega kjósa
Við hjónin erum fædd og uppalin í Vestmannaeyjum. Við höfum búið víða um landið og fjögur ár bjuggum við í Danmörku. Eiginkona mín vann þar við kennslu, bæði á íslensku og dönsku, og ég lærði þar margmiðlunarhönnun og tölvunarfræði.
Sumarið 2018 fluttum við fjölskyldan frá Eyjum til Reykjanesbæjar. Ég hef mikinn áhuga á mikilvægi fjölmenningar og aðlögunar eftir að hafa verið nýr íbúi í Danmörku og í Reykjanesbæ. Sveitarfélagið stækkar ört og um fjórðungur íbúa Reykjanesbæjar er af erlendum uppruna. Undanfarin ár hefur það hlutfall verið það hæsta á landinu.
Þriggja ára búseta veitir kosningarétt
Á námsárunum í Danmörku vann ég sem fréttaritari fyrir Stöð 2. Ég fjallaði mikið um dönsku pólitíkina, meðal annars þingkosningar og sveitarstjórnarkosningar. Mér fannst það merki um að ég væri samþykktur sem íbúi í Danaveldi þegar ég mátti kjósa í sveitarstjórnarkosningum þar, þó ekki mættum við hjónin kjósa í dönsku þingkosningum vegna íslensks ríkisborgararéttar.
1. janúar 2022 tóku gildi ný kosningalög á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru 31.702 erlendir ríkisborgarar með kosningarétt við komandi sveitarstjórnarkosningar. Nú gilda sömu reglur um kosningarétt íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Þau sem hafa náð 18 ára aldri á kjördag, 14. maí 2022, og eru skráð með lögheimili í sveitarfélaginu mega kjósa og eru kjörgeng í sveitarstjórnarkosningum. Aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa náð 18 ára aldri og hafa verið með skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag njóta kosningaréttar. Áður var miðað við fimm ára búsetu.
Sem flest á kjörstað á laugardaginn
Það er lýðræðislegur réttur okkar að kjósa. Mér finnst það líka vera samfélagsleg skylda okkar að hvetja samborgarana til að nýta þann rétt og taka þannig þátt í að móta samfélagið. Við sem þjóð höfum verk að vinna við að virkja enn betur fleiri í okkar samfélagi. Íbúum af erlendum uppruna fjölgar á framboðslistum en miðað við áðurnefnda tölfræði í Reykjanesbæ ættu tveir fulltrúar hið minnsta úr röðum aðfluttra að eiga sæti í 11 manna bæjarstjórn. Í ört stækkandi bæjarfélagi gildir einu í þessu samhengi hvort nýir íbúar koma frá fjarlægum löndum eða eyju suður af Íslandi.
Kosningahvati minn til þín er sá að við skulum öll hjálpast að og virkja sem flest til að mæta á kjörstað laugardaginn 14. maí til að kjósa sér fulltrúa til starfa fyrir sveitarfélagið okkar. Gerum þannig gott samfélag enn betra.
Sighvatur Jónsson,
Höfundur skipar 6. sæti á B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.