Konur til forystu
Á næstu vikum munu þau öfl sem bjóða munu fram til næstu alþingiskosninga, ganga frá sínum framboðum, með því fólki sem tilbúið er til þess takast á við þau risavöxnu verkefni sem íslensk þjóð stendur andspænis. Verkefni sem skera munu úr um hvaða lífskjör íslensk þjóð mun njóta í framtíðinni. Það mun skipta máli að velja til forystu einstaklinga sem eru óhræddir við leggja á brattann, fólk sem skilur hismið frá kjarnanum, fólk sem er tilbúið til að leggjast gegn hvers kyns sérhagsmunagæslu með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi. Þær karllægu aðferðir sem lengi hefur verið beitt við úrlausn mála þarfnast endurskoðunar við og besta og fljótvirkasta leiðin til þess að breyta því er að fjölga konum á þeim stöðum þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Einn slíkur staður er Alþingi Íslendinga. Af þessu tilefni langar mig til að benda á tvær konur sem gefið hafa kost á sér í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Konur sem ég ætla að styðja til forystu. Þessar konur eru Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði og Anna Margrét Guðjónsdóttir, forstöðumaður skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel. Þessar konur hafa þá undirstöðu sem þarf, eru með góða menntun og margháttaða reynslu á mörgum sviðum.
Anna Margrét er landfræðingur að mennt og hefur meistarapróf í opinberri stjórnsýslu. Hún hefur starfað við kennslu sem ferðamálafulltrúi bæði á Vestfjörðum og í Reykjavík og gegnt ýmsum ábyrgðarstörfum hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur haft það verkefni á sinni könnu að byggja upp og veita forstöðu skrifstofu Sambands sveitarfélaga í Brussel og staðið sig mjög í því.
Oddnýju þekkjum við Suðunejsamenn bara af góðu einu. Hún hefur komið að ýmsu fyrir okkar hönd í gegnum tíðina og skilað því með sóma. Vinsældir hennar sem bæjarstjóra segja ýmislegt um hverrar gerðar hún er.
Í síðustu alþinginskosningum voru 3 karlmenn í efstu þremur sætum framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjödæmi. Nú er hins vegar einstakir möguleikar á að breyta þessu. Sýnum að við meinum eitthvað með kröfum okkar um breytingar og styðjum þessar kjarnakonur, Oddnýju og Önnu Margrét í forystusveit Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Þá breytum við á réttan hátt.
Gubrandur Einarsson
bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ