Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Könguló, könguló vísaðu mér á berjamó
Fimmtudagur 25. september 2003 kl. 08:18

Könguló, könguló vísaðu mér á berjamó

Ég fór í berjamó um daginn með nokkra krakka. Ég lét hvert  þeirra fá ílát til að tína í. Við gengum um í móum og upp í fallega hlíð og byrjuðum að tína ber í yndislegu veðri. Fljótlega byrjuðu þau að spyrja. Af hverju erum við að tína ber? Það  er hægt að kaupa þau. Ég svaraði að það væri svo heilnæmt að vera svona úti í náttúrunni og svo væri berjaskyr svo gott. Já, en það er til í búðum, sagði einn. Ég nenni þessu ekki,  sagði annar og öll byrjuðu þau að nöldra. Svona, svona. sagði ég og gerði tilraun til að hleypa í þau kappi með því að segja: „Við skulum sjá hver verður fyrstur að tína botnfylli.”

„Ha, hvað er það.. til hvers?“ spurðu þau.

Eftir að hafa hughreyst og hvatt þau áfram og talað þau til  hrópaði ég hátt og mörgum sinnum „Könguló, könguló vísaðu mér á berjamó”. Mér var þá litið upp og sá að þau horfðu hvert á annað og settu upp hneykslissvip og ranghvolfdu í sér augunum. Þeim fannst frænka sín klikkuð,  „alveg steikt”  eins og einn sagði. Ég hugsaði til þeirra gömlu góðu daga þegar við krakkarnir í holtunum fórum upp í heiði kannski bara upp að vatnstanki til að tína ber. Stundum vorum við með nesti - mjólk á flösku og matarkex.  Heim komum við svo berjablá út að eyrum og færandi hendi. Afraksturinn afhentum við  mömmu með ánægju svo hægt væri að hafa berin út á skyr eða gera saft og sultu. Leiðinlegast fannst okkur að hreinsa berin ef ég man rétt og þarna sem ég er að rifja þetta upp með nöldrandi krakka með mér í berjamó nær nostalgían tökum á mér. Er mér þá litið upp hlíðina eins og Gunnar gerði  forðum og sé þar breiður af lúpínu en ég man nú ekki eftir neinni lúpínu í heiðinni forðum!

Allt í einu heyrast öskur, ílátin liggja á víð og dreif og krakkarnir hlaupa niður að bíl í örvæntingu. Þau heyrðu suð í flugum og sátu nú inni í bíl viðbúin öllu og hrópuðu og kölluðu til mín að ég væri í stórhættu og að hunangsflugurnar gætu stungið mig.

Ég man ekki eftir að við höfum verið hrædd við neitt í „heiðinni” forðum, ekki einu sinni köngulær. Sögur um svörtu ekkjuna bárust okkur löngu seinna. Í heiðinni forðum ríkti eftirvænting og það var eins og við værum drifin áfram af einhvers konar söfnunaráráttu. Einhver tilfinning sem ég get ekki almennilega skýrt.  Aðalmálið var að skaffa björg í bú og tína sem mest.

Haustverkin

Á heimleiðinni sagði ég krökkunum frá því,  að þegar ég var lítil hafi ég safnað öllu mögulegu t.d. frímerkjum,  leikaramyndum, servéttum, vindlahringjum úr bréfi, skeljum, bíóprógrömum, bíómiðum og ýmsum aðgöngumiðum (finn þó hvergi miðann frá Led Zeppelin hljómleikunum sem ég fór á í Laugardalshöllinni forðum) En krakkarnir skyldu ekki þessa söfnunaráráttu. Af hverju varstu að safna öllu þessu drasli (þau henda meir að segja launaseðlunum sínum nú til dags) Mikið hafa tímarnir breyst hugsaði ég og beygði upp á þjóðveg nr. 1. Nú spyr ég: Fær enginn þessa tilfinningu lengur að þurfa að ganga frá ýmsu á haustin?  Ég rifjaði upp þegar amma fékk frystikistu í fyrsta sinn inn á heimilið (sú fyrsta í fjölskyldunni til að eignast þvílíkan kostagrip).  Hún tók slátur, keypti skrokk af bónda upp í sveit og það tók svo nokkra daga að verka kjötið af skepnunni. Svo var saltkjötstunna úti á svölum. Afi veiddi líka lax. Amma gerði rabbabarasultu, berjasaft og svo var það allt prógrammið við kartöflutínsluna á haustin og hvort sprettan var betri eða verri en í fyrra. Öllu var raðað haganlega í frystikistuna sem þar átti heima og hinu raðað inn í búr (það er ekki rimlabúr krakkar,  heldur köld geymsla). Lyktin af slátri minnti mig á skólabyrjun eins og jólasmákökurnar minntu á jólin og hrogn og lifur á þorrann og gónuna. Hvernig er þetta í dag?

„Gamla draslið”.

Þegar ég kom heim úr berjamó fékk ég sérstaka löngun til að gramsa í gömlu dóti í bílskúrnum (enn undir áhrifum nostalgíu) og viti menn eiginmaðurinn kom að vörmu spori og hélt ég ætlaði nú loksins að fara að henda einhverju af  „þessu drasli “ eins og hann kallar  gamla dótið mitt sem mér þykir svo vænt um, sem minnir mig á æsku mína og lyktina hjá ömmu og minnir mig á  löngu liðna daga. Sumt ætti meir að segja heima á safni.  Ég ætti kannski að láta bítlamyndirnar og Elvis leikaramyndirnar mínar á poppminjasafnið sem nú er unnið að í Reykjanesbæ!.

Ég gaf eiginmanninum pirrandi augnaráð. Ég sem hafði gefið heilmikið eftir í síðustu hausthreingerningu. Meir að segja leyfði ég honum að henda fína svefnsófanum sem ég fékk í fermingargjöf. Þessi sem ég ætlaði alltaf að nota ef ég eignaðist sumarbústað (margt annað í bílskúrnum átti einmitt að fara þangað). Eftir ræðuhöld um hvað það væri dýrt að kosta húsnæði fyrir einskis nýta hluti lokaði ég hið snarasta gamla koffortinu mínu og fór inn að horfa á Ophru.  Hvað er að fólki í dag?  hugsaði ég.

Það er alla vega öruggt að vilji maður stofna til hjónarifrildis er best að stinga upp á að taka til í bílskúrnum. Það virðist vera  lögmál að annar aðilinn vill henda öllu og hinn stendur í mesta basli við að hirða hluti sem að því er virðist eru einskis virði, alla vega  fyrir aðra. Ef ég þarf að rífast er nóg að horfa á gömlu strauvélina hennar ömmu sem endalaust getur komið af stað rökræðum um hverju á að henda eða ekki.

Minningar í tösku.

Systir mín sem starfar í öldrunargeiranum sagði mér frá því um daginn að gefist hafi vel í þjálfun minnissjúkra  að láta þá safna hlutum í tösku sem tengjast minningum þ.e. setja í koffort eða tösku hluti sem þeim hefur þótt vænt um eða sem þeir handfjötluðu oft.   Þannig geta ummönnunaraðilar tekið upp úr töskunni með þeim annað slagið og rifjað upp. Ég sé að fljótlega þarf ég að fara að minnka draslið úr bílskúrnum niður í eina tösku eða taka af uppáhaldshlutunum myndir eða setja þetta allt á video eða diska. Leita að hlutum sem geta haft heilan hafsjó af minningum, t.d. fyrstu peysuna sem ég prjónaði á frumburðinn, skartgripaskrínið sem ég fékk í fermingargjöf eða sparibaukinn rauða sem var eins og bók. Það er ekki seinna vænna  að halda þessu saman. Um daginn spurði lítill drengur mig að því hvað „upptakari” væri og til hvers hann væri notaður.  Hugsa sér að sú kynslóð sem nú vex úr grasi kann ekki að hringja í skífusíma, nota upptakara eða umgangast áður nauðsynlegustu tæki og  áhöld  t.d. verkfæri og annað sem var afrakstur hugvitsmanna sem hýrðu hér við lélegan búkost og vosbúð en urðu að redda sér sjálfir án stórmarkaða, skyndibitastaða, farsíma eða nets.

 

Helga Margrét
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024