Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Þriðjudagur 31. janúar 2006 kl. 11:23

Komuverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Í tilefni skrifa Samtaka verslunar og þjónustu um takmörkun á vöruúrvali í komuverslun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar vill félagið koma eftirfarandi á framfæri:

Verslun færist úr landi
Samtök verslunar og þjónustu halda því fram að komuverslun sé í samkeppni við verslun í landinu. Þetta telja forsvarsmenn FLE ekki rétt. Helstu samkeppnisaðilar komuverslunarinnar í flugstöðinni eru fríhafnarverslanir á erlendum flugvöllum. Með því að bjóða upp á góða og samkeppnishæfa fríhafnarverslun hér á landi er því verið að færa verslun frá útlöndum og til Íslands. Um leið er það til ómældra þæginda fyrir ferðamenn að þurfa ekki að ferðast með tollfrjálsan varning í flugi á milli landa ef þeir geta keypt hann á jafngóðum eða betri kjörum í komuversluninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Skýrasta dæmið um þetta er komuverslun í Noregi, en fyrsta fríhafnarverslun fyrir komufarþega í Noregi var opnuð á Oslóarflugvelli (Gardermoen) 1. júlí 2005. Forsvarsmenn verslunarinnar segja að markmiðið með komuverslun á Oslóarflugvelli sé ekki að taka viðskiptavini af verslunarfyrirtækjum Noregs, enda samræmist slíkt ekki hagsmunum fyrirtækisins. Farþegarnir hafi sjálfir óskað eftir að fá komuverslunina og við því hafi verið brugðist. Þá kemur fram að aðstandendur komuverslunar á Oslóarflugvelli telja að hinir eiginlegu keppinautar í viðskiptum séu erlendar fríhafnir og með því að opna komuverslunina sé verið að flytja fríhafnarverslunina heim. Enda hefur sýnt sig að megináhrif opnunar á þessari verslun varð sú að verslun dróst saman á öðrum flugvöllum eins og t.d. í Aberdeen í Bretlandi. Þessar upplýsingar hafa fengist staðfestar hjá World Duty Free sem reka flestar fríhafnarverslanir á Bretlandseyjum. Einnig má nefna að Nuance, sem rekur fríhafnarverslunina í Kaupmannahöfn, hefur kvartað undan þessari nýju samkeppni þar sem Norðmenn, sem eru þeirra bestu viðskiptavinir, hafa fært töluvert af sínum viðskiptum frá þeim yfir til komuverslunarinnar í Osló. Það má draga þá ályktun af opnun komuverslunar í Noregi að ef komuverslun myndi leggjast af á Íslandi eða ef vöruflokkum yrði fækkað þá myndu farþegar versla þær vörur í erlendum fríhöfnum.

Tollamörk
Það einnig rétt að benda á að takmörkun er á því hvað ferðamenn geta flutt inn af tollfrjálsum varningi. Þannig getur ferðamaður búsettur á Íslandi aðeins verslað tollfrjálst fyrir 46.000 kr. í einni ferð miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Jafnframt má verðmæti hvers hlutar ekki vera meira en 23.000 kr. nema viðkomandi greiði innflutningsgjöld miðað við verðmæti sem umfram er. Það eru því hömlur á því hvað viðskiptavinir Fríhafnarinnar mega versla mikið.

Álögur á farþega
Það ber einnig að hafa í huga að tekjur af verslunarrekstri er aðal tekjulind Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þær standa undir rekstrarkostnaði og öllum stækkunum og endurbótum sem gera þarf á flugstöðinni. Komuverslun á stóran þátt í þeim tekjum. Ef hennar nyti ekki við er ljóst að hækka þyrfti verulega álögur á flugrekendur og farþega. Slíkar ráðstafanir mundu koma verulega illa niður á ferðaþjónustunni í landinu.

Svissneskir flugvellir, sem eru að þrýsta á ríkisstjórnina þar að opna fyrir rekstur komuverslunar, líta einmitt á komuverslun sem mikilvæga tekjulind í uppbyggingu flugvallanna. Yfirmaður fasteignasviðs Zürichflugvallar telur að tekjur af komuverslun muni verða mikilvæg tekjulind fyrir flugvöllinn svo hann geti staðið undir framkvæmdum við uppbyggingu aðstöðu fyrir farþega. Hann telur að yfirvöld geti ekki annað en litið jákvæðum augum á komuverslun í Sviss með það í huga. Svisslendingarnir gera sér vonir um að ákvörðun yfirvalda liggi fyrir sem fyrst og að þeir geti opnað fyrstu komuverslanir á Zürichflugvelli í lok árs 2006.

Störf í flugstöðinni
Það er mat stjórnenda Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar að ef komuverslun væri lögð niður væri annars vegar verið að færa verslun úr landinu og leggja af tekjustofn sem er afar mikilvægur fyrir rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Hins vegar væri verið að draga úr þýðingarmikilli þjónustu við ferðamenn og fækka störfum verslunarfólks á Suðurnesjum. Flugstöðin er með stærri vinnuveitendum á Suðurnesjum og hefur fækkun starfsfólks töluverð áhrif á atvinnuástand á svæðinu.

Keflavíkurflugvelli, 31. janúar 2006.
Höskuldur Ásgeirsson, forstjóri FLE hf.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024