Komin með ógeð af stjórnmálum!
Komin með ógeð af stjórnmálum ... og stjórnmálamönnum sem standa aldrei við neitt sem þeir segja. Ég veit ekki hvort ég nenni einu sinni að kjósa.“
Setning sem ég hef heyrt nokkrum sinnum í kosningabaráttunni undanfarna daga. Setning sem felur í sér algert vonleysi og uppgjöf. Ég get lofað því að Framsókn ætlar ekki að gefast upp. Framsókn er sá flokkur sem ætlar að afnema verðtrygginguna og leiðrétta neytendalánin sem stökkbreyttust í Hruninu 2008. Framsókn er án efa með sanngjörnustu og best útfærðu peningastefnuna og það sem mestu máli skiptir; heiðarlegt og duglegt fólk í forystu sem hefur kjark og þor til að takast á við þessi stóru verkefni.
Fugl í hendi
Andstæðingar Framsóknar tala um að leiðrétting lána sé innantómt loforð. Fjármagnið sé ekki í hendi og samningar muni e.t.v. ekki nást við vogunarsjóðina. Gott og vel. Í fyrsta lagi þá værum við ekki að setja fram slíka tillögu nema við hefðum eitthvað í hendi. Menn sem til þekkja og þjóna ekki hagsmunum pólitískra andstæðinga Framsóknar hafa fullyrt að slíkt svigrúm sé til staðar þar sem vogunarsjóðir vilji losa þetta fjármagn. Már Gunnarsson Seðlabankastjóri hefur nefnt 75% afskriftir sem þýðir að hagnaður vogunarsjóðanna yrði mjög góður þar sem þeir keyptu þrotabú bankanna á 2-5% virði. Eftir standa u.þ.b. 300 milljarðar sem Framsókn ætlar að nota til að leiðréttta lán heimilanna. Að þessu sögðu þá vil ég nefna að Framsókn og aðrir hafa bent á fleiri leiðir til að losa fjármagn til að leiðrétta stöðu heimilanna, t.d. með því að skattleggja hagnað fjármálastofnana.
Heimilin eru undirstaða samfélagsins. Án þeirra er tilgangslaust að byggja jarðgöng, skóla, sjúkrahús og vegi. Verkefnið er til staðar og Framsókn ætlar að leysa það.
Snjóhengjuna verður að losa
Hópur fólks úr atvinnulífinu hefur sett upp vefsíðuna www.snjohengjan.is um þessi efni. Ólafur Arnarson hagfræðingur og ritstjóri Tímaríms hefur tjáð sig um þetta og segir m.a.: „Ég sé ekki betur en að full ástæða sé til að taka mark á því fólki sem er í forsvari fyrir snjohengjan.is. Að þeirra mati er 800 milljarða svigrúm sem felst í snjóhengjunni og farsæl lausn þessa máls með ýtrustu hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi ræður miklu um lífskjör hér á landi á komandi árum og áratugum. Við verðum að beita öllu okkar afli; með skattheimtu, lagasetningu og mögulega msimunandi skiptigengi til að afskrifa þessa snjóhengju svo hægt verði að nota fjármunina íslenskum heimilum og skattgreiðendum til heilla. Gjaldeyrishöft verða ekki afnumin hér án þess að við losum okkur undan snjóhengjunni,“ bætir Ólafur við.
Varðhundarnir í Sjálfstæðisflokknum
Margir líta nú hýru auga til stjórnarsamstarfs Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Sumir ætla jafnvel að kjósa síðarnefnda flokkinn, þó þeim lítist betur á stefnu Framsóknar þar sem þeir vilja tryggja fyrrnefnt samstarf. Slík aðgerð væri sóun á dýrmætu atkvæði og byggð á misskilningi. Þeir sem telja Framsókn með sanngjörnustu stefnumálin verða að kjósa Framsókn vegna þess að það skiptir máli í þessum kosningum að Framsókn verði nógu sterkt afl til að ekki sé hægt að mynda stjórn gegn stefnu hans í skuldamálum heimilanna. Það er ennþá raunhæfur möguleiki að t.d. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking myndi meirihluta gegn Framsókn. Það er alveg skýrt að stefna Sjálfstæðisflokksins ber þess skýr merki að nú skuli enn og aftur verja hagsmuni fjármagnseigenda.
Kæri kjósandi. Á laugardaginn renna upp mikilvægustu kosningar Íslandssögunnar. Ég bið þig um að láta þitt atkvæði renna til þeirra sem ætla að leiðrétta stöðu heimilanna og koma atvinnulífinu aftur af stað. Ísland er land tækifæranna. Merktu X við B.
Framsókn fyrir framtíðina! Framsókn fyrir Ísland!
Silja Dögg Gunnarsdóttir 2. Sæti Suðurkjördæmi