Komdu og hittu kraftmiklar Suðurnesjakonur!
SKASS (Samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna) og Frumkvöðlasetrið á Ásbrú bjóða allar konur velkomnar að hitta kraftmiklar Suðurnesjakonur, þriðjudaginn 1. febrúar kl. 20:00 í Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú.
Samstaða kvenna á Suðurnesjum hefur vakið athygli en í september komu rúmlega 100 konur saman til að stofna SKASS, Samtök kraftmikilla, alvöru, skapandi Suðurnesjakvenna. SKASS eru opin samtök fyrir konur á Suðurnesjunum en tilgangurinn er að efla tengslanet kvenna á svæðinu, fræðast og fræða, efla okkur sjálfar og um leið hvor aðra og styðja konur á Suðurnesjunum til dáða í námi og starfi. Einkunnarorð SKASS eru gleði, kraftur og sköpun. Allar konur eru velkomnar í SKASS og frekari upplýsingar má fá á vefnum, skass.org.
Frumkvöðlasetrið á Ásbrú hefur þann tilgang að styðja við þá sem eru að þróa viðskiptahugmynd, eru að stíga fyrstu skref í rekstri, eða vilja bæta starfandi fyrirtæki með nýsköpun og vöruþróun. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðunni incubator.asbru.is
SKASS og Frumkvöðlasetrið hvetja konur til að fjölmenna á febrúarfund SKASS og styðja þannig við framtakssamar konur á Suðurnesjunum. Febrúarfundurinn verður með nokkuð breyttu sniði frá því sem venjulegt er, en þriðjudagskvöldið 1. febrúar mun fjöldi flottra kvenna af Suðurnesjunum kynna verkefni sín og fyrirtæki. Suðurnesjakonur ætla að hvetja hverja aðra til dáða og láta reynslu athafnakvenna verða okkur hinum hvatning til að láta drauma okkar rætast, hverjir sem þeir eru!
Díana Lind Monzon, Suðurnesjasönkona úr söngleiknum Buddy Holly tekur lagið og við fáum góða gesti frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Félagi kvenna í nýsköpun. Að auki mun Kristín Pétursdóttir frá Auði Capital segja nokkur orð, en Kristín er sendiherra verkefnisins Female Entrepreneurship in Nordic Regions.
Kaffitár býður upp á ilmandi kaffisopa, Íslandsbanki svalar einnig þorstanum auk þess sem Bláa Lónið gefur okkur að smakka gómsætt sushi sem er nýtt á matseðlinum hjá þeim.
Þann 2. febrúar hefst svo námskeiðið Brautargengi frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og er von forsvarsmanna SKASS og Frumkvöðlasetursins að konur á Suðurnesjunum noti það tækifæri til að styrkja sig og sækja enn frekar í sig veðrið!
Með fyrirfram þakklæti.
Anna Lóa Ólafsdóttir
Náms- og starfsráðgjafi og forsvarskona SKASS
[email protected]
Farsími: 899 5310
Þóranna K. Jónsdóttir
Verkefnastjóri Frumkvöðlasetursins á Ásbrú
[email protected]
Farsími: 843 6020
Sjá líka:
skass.org
incubator.asbru.is