Knattspyrna fyrir dætur Reykjanesbæjar
Í Reykjanesbæ er rík hefð fyrir íþróttum og hafa bæjarbúar stutt sitt fólk á knattspyrnuvöllum, á hliðarlínunni í íþróttahúsum, inni í sundmiðstöðvum og annars staðar þar sem duglegir einstaklingar mæta, leggja sig fram og keppa til sigurs. Vinsælasta íþróttin á Íslandi hefur jafnan átt stóran sess í hjörtum fólks og átti til að mynda Keflavík hið fræga gullaldarlið sem bæjarbúar eru stoltir af. Það eru mörg önnur afrek sem hægt er að horfa til með stolti en utanumhald kvennaknattspyrnunnar er ekki eitt þeirra.
Reykjanesbær er eftirbátur annarra bæjarfélaga þegar kemur að kvennaknattspyrnu þar sem konur hafa verið látnar sitja á hakanum innan íþróttahreyfingarinnar þrátt fyrir að nú sé mikill meðbyr með knattspyrnu kvenna á Íslandi sem og úti í heimi. Nú stöndum við á tímamótum því ljóst er að kvennaknattspyrna getur ekki þrifist, svo vel megi við una, inni hjá knattspyrnufélögum Keflavíkur og Njarðvíkur. Hvað skal gera þegar svo ber við? Á að leggja árar í bát og gefast upp? Beina dætrum okkar í aðrar íþróttir þar sem þær eiga jafnan tilverurétt og drengirnir? Eigum við jafnvel að biðja dætur okkar um að hætta að stunda íþróttir og biðja þær um að beina sjónum sínum að öðrum og minna krefjandi efnum? Svo aldeilis ekki.
Það hefur í mörg ár verið reynt að halda úti kvennaknattspyrnu innan raða hins fornfræga félags Keflavíkur. Það hefur ekki gengið, hverjar sem ástæður þess eru. Hugsanlega vegna þess að ekki koma nógu margir að þeirri starfsemi eða vegna þess að ekki er vilji meðal félagsmanna Keflavíkur að halda úti kvennaknattspyrnu. Eflaust er það sambland af báðu.
Hvað er þá til ráða? Stofna nýtt félag. Félag sem hefur hag kvenna að leiðarljósi. Félag sem styður að öllu leyti við konur, er rekið að öllu leyti af áhugafólki fyrir kvennaknattspyrnu og er byggt upp í þágu kvenna.
Þessi hugmynd var lögð fram á fundi mánudaginn 25. mars síðastliðinn. Framsögumaður, Friðjón Einarsson, fór vel í gegnum mikilvæg atriði sem snúa að kvennaknattspyrnu og ástæður þess m.a. að henni vegni illa á sumum stöðum en betur annars staðar. Eitt af því sem virðist skipta miklu máli er umgjörðin, sem engan skal undra.
Undirrituð hefur stundað knattspyrnu hjá Keflavík, þjálfað hjá Keflavík og verið einlægur stuðningsmaður félagsins. Ég hef hins vegar lengi rekið mig á það viðhorf og þá umgjörð sem ríkir í kringum kvennaknattspyrnuna hjá Keflavík. Að mínu mati þá hindrar hún uppbyggingu hennar og framþróun. Af þeim sökum styð ég þá hugmynd að stofna nýtt félag sem einungis er skipað af dætrum okkar. Þær fá þar allan þann stuðning sem þær þurfa. Þær eru aðalviðfangsefni félagsins og stolt.
Skipaður hefur verið undirbúningshópur utan um það verkefni að stofna nýtt knattspyrnufélag innan Reykjanesbæjar. Um er að ræða spennandi verkefni sem gæti blásið nýju og fersku lífi í kvennaknattspyrnuna á svæðinu.
Áfram dætur Reykjanesbæjar
Björg Ásta Þórðardóttir