Klukk, þú ert´ann!
Guðmundur St. Gunnarsson skrifar.
Þegar ég var polli æfði ég hinar ýmsu íþróttir sem stóðu til boða í bænum og einu sinni í viku var videoklúbbur og skákæfingar. Það var alltaf nóg að gera. Ég og vinir mínir lentu í ýmsum ævintýrum í daglegu lífi. Á kvöldin köstuðum við snjóboltum í rúður, gerðum dyraat og njósnuðum um aðra íbúa bæjarins. Ég man þegar fyrsti snjórinn féll og við systkinin fengum að vaka lengur til að gera snjókarla og -kerlingar eða snjóhús. Á sumrin var oft leikið langt fram á nótt í kóngabolta við skólann. Þetta voru svo sannarlega gömlu góðu dagarnir.
„Alltaf vont veður“
Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér ég hafa haft nóg fyrir stafni alla daga ársins þrátt fyrir að snjallsímar hafi ekki verið komnir á markað og þær tölvur sem hægt var að spila leiki á voru forritaðar með kasettum.
Í dag er öldin önnur. Já bókstaflega! Þegar blæs þá er vont veður, þegar rignir er vont veður, þegar snjóar þá er vont veður, þegar það er nokkuð gott veður þá er líka of vont veður til að fara út. Mörg börn vita ekki hvað hægt er að gera ef ekki er sími eða fjarstýring við hendina og virðast gömlu útileikirnir vera að falla í gleymsku.
Eitt af markmiðum mínum í lífinu er að gera hverfið mitt, bæinn minn og landið mitt að betri stað til að búa í. Ég hef líka áttað mig á því að annar fóturinn þarf alltaf að fara fram fyrir hinn og mörg lítil skref koma manni í átt að markmiðinu - og á endanum jafnvel á áfangastað.
Leikjaklúbbur hverfanna
Ein af fjölmörgu ókeypis hugmyndum sem mig langar að koma í framkvæmd til að bæta lífsgæði okkar bæjarbúa er að setja af stað leikjaklúbba þar sem foreldrar taka sig saman og taka að sér ákveðin tímabil og sjá um leiki eða útivist fyir börnin í hverfinu sínu. Þetta ætti að vera auðvelt vegna upplýsingasíðna hverfanna á facebook. Hægt er að skipuleggja einn til tvo viðburði í viku sem auglýstur er á upplýsingasíðu viðkomandi hverfis. T.d. brennó við Akurskóla á fimmtudögum kl 19:30 eða Eina krónu við Myllubakkaskóla kl 17:00.
Þetta krefst sjálfboðavinnu sem ég veit að margir eru tilbúnir í. Sjálfboðavinna er frábær leið til að eignast vini, styrkja félagsleg tengsl og fá tækifæri til að láta gott af sér leiða að ógleymdri skemmtuninni og gleðinni sem af henni hlýst.
Þeir sem hafa áhuga á að byrja á þessu samfélagslega verkefni endilega verið í sambandi við mig póstfanginu [email protected] eða byrjið í ykkar hverfi.
Guðmundur Stefán Gunnarsson