Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Klárum málin saman
  • Klárum málin saman
    Guðbergur Reynisson.
Fimmtudagur 13. febrúar 2014 kl. 09:33

Klárum málin saman

Síðastliðin 12 ár hafa miklar breytingar orðið í bænum okkar Reykjanesbæ þrátt fyrir áföllin en við brotthvarf herstöðvar á Ásbrú árið 2006 hurfu rúmlega 1100 störf og úr varð klárlega stærsta atvinnuvandamál Íslandssögunnar.  Í miðjum klíðum við lausn á því vandamáli kom efnahagshrunið árið 2008 sem hafði ekki aðeins áhrif á Reykjanesbæ heldur alla heimsbyggðina en hundruðir stórra og smárra fyrirtækja sáu enga aðra lausn en að segja upp fólki eða loka.

Þrátt fyrir þessi áföll og minni innkomu hefur Reykjanesbæ tekist að viðhalda allri nauðsynlegri þjónustu við íbúa eins og gerist best á landinu.

Leik- og grunnskólar eru að gera góða hluti og sýna að þeir standa sig á við þá bestu í landinu.  Nýr skóli á Ásbrú, Keilir, hefur útskrifað um 1700 nemendur.  Íþróttastarfið er í miklum blóma en flest öll félögin hafa mjög góða félagsaðstöðu og sést það best á árangri þeirra en árið 2013 voru hvorki meira né minna en 269 Íslandsmeistarar og það í bæ sem hýsir rétt rúmlega 14.000 íbúa. Það hlýtur að vera afrek.

Forvarnarstefnu hefur verið viðhaldið m.a. með styrkveitingum til íþróttamála, Ungmennaráði, 88 Húsi, Fjörheimum og síðast en ekki síst uppbyggingu á  glæsilegum unglingagarði við Hafnargötu.  Enda er unglingadrykkja og reykingar  minnst á landinu í Reykjanesbæ.

Umhverfi Reykjanesbæjar hefur verið stórbætt með aðlaðandi aðkomum,  útivistarsvæðum og göngustígum til þess að laða að ferðamenn og fjölskyldufólk alls staðar að en nýleg könnun sýnir einmitt að flestir vilja flyta til Reykjanesbæjar.

Stórir hlutir hafa verið að gerast í atvinnumálum þar sem vel launuð störf hafa skapast í fyrirtækjum eins og í stærsta fiskeldi landsins á Reykjanesi, Gagnaveri á Ásbrú og u.þ.b. hundrað störf við Keili.  Á Ásbrú eru að auki rúmlega 100 fyrirtæki og frumkvöðlar með starfsstöðvar, að ógleymdri flugþjónustunni sem árlega skilar í kringum 100 nýjum störfum.

Lagðar hafa verið sterkar stoðir að áframhaldandi uppbyggingu að iðnaðarsvæði í Helguvík þar sem fjöldi stærri fyrirtækja er að vinna í því að koma sér fyrir. Fyrirtæki á borð við Kísilver og Álver sem geta boðið uppá hálaunuð störf fyrir 150 starfsmenn eða fleiri.

Varðandi aðra uppbyggingu þá hefur starfsemi tónlistarskóla Reykjanesbæjar verið stórefld með tilkomu Hljómahallarinnar en þar mun Rokkminjasafnið fá aðsetur sem mun m.a. draga ferðamenn að.

Öll þjónusta við barnafólk hefur verið stórefld með Fræðasetri, Umönnunarnámsskeiðum og einnig er nú á teikniborðinu Fjölskyldusetur í Gamla Barnaskólanum við Skólaveg.

Svo er vert að minnast á hið glæsilega hjúkrunarheimili á Nesvöllum sem tekið verður í notkun á vormánuðum.

Þessi upptalning er alls ekki tæmandi yfir það sem hefur gerst eða er komið í vinnslu heldur sýnir hún að með stöðugri forystu og skýrri framtíðarsýn má yfirstíga flest öll áföll sem tefja byggingu betra samfélags.

Nú líður að prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem verður þann 1. mars næstkomandi og vil ég hvetja þig Kæri Bæjarbúi til þess að taka þátt í prófkjörinu og taka þannig þátt í að móta framtíð okkar í okkar frábæra bæjarfélagi.  Hjàlpaðu okkur að klára málin.

Guðbergur Reynisson,
formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024