Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kjósum Sigríði Jóhannesdóttur í  2. sæti.
Fimmtudagur 2. nóvember 2006 kl. 15:23

Kjósum Sigríði Jóhannesdóttur í 2. sæti.

Reykjanesbær er stærsti þéttbýliskjarni í Suðurkjördæmi og okkur sem hér búum og erum stuðningsmenn Samfylkingarinnar finnst alls ekki ásættanlegt að ekki sé a.m.k. einn af fjórum þingmönnum flokksins héðan.
Við áttum slíkan í tæp tvö kjörtímabil meðan Reykjanesbær var hluti af Suðvestur kjördæminu en misstum hann í síðustu kosningum þegar við sameinuðumst Suðurkjördæmi.
Ég ætla ekki að rekja hér ástæður þess missis en þar fórum við einfaldlega hrapalega að ráði okkar.
Nú er mikið mannval í prófkjöri Samfylkingarinnar og því ber vissulega að fagna. Þessir frambjóðendur hafa til að bera mikla breidd í reynslu, menntun og mannkostum og koma að auki frá flestum stöðum kjördæmisins.
Ég skrifa þetta greinarkorn til þess að hvetja fólk, bæði félaga mína úr Samfylkingunni, og raunar alla, því þetta er opið prófkjör, til þess að tryggja Sigríði Jóhannesdóttur annað sæti á lista Samfylkingarinnar.
Ég hef þekkt Sigríði í áratugi og veit að þar fer einstaklega traust og heiðarleg kona. Hún starfaði hér lengi á vettvangi bæjarmála og átti sér, eins og velflestir sem þar störfuðu, þann draum að sjá jafnaðarmenn í einum öflugum flokki. Er sá kostur bauðst gekk hún heils hugar til þess samstarfs.
Sigríður hefur að baki langa og fjölbreytta reynslu af pólitísku starfi, fyrst hér í bæjarmálum og hefur síðan setið tvö kjörtínabil á Alþingi við mjög góðan orðstír. Þar hefur hún setið í menntamálanefnd, fjárlaganefnd, landbúnaðarnefnd og átt sæti í Norðurlandaráði.
Sigríður sat lengi í stjórn Kennarasambands Íslands og tók mikinn þátt í starfi norrænu kennarasambandsins, ásamt því að vera um langt skeið formaður Norræna félagsins hér.
Reynsla hennar í starfi fyrir launþegahreyfinguna og í erlendu samstarfi ásamt farsælli þingmennsku er nokkuð sem við eigum að notfæra okkur hér í kjördæminu.
Sigríður situr nú í stjórn Tryggingarstofnunar ríkisins og ég veit að þar, eins og annarstaðar, reynir hún að beita sér í þágu þeirra sem erfiðast eiga og tryggja að hagur þeirra sé ekki fyrir borð borinn.
Það er skortur á konum á Alþingi og það er skortur á þingmönnum héðan úr Reykjanesbæ.
Með því að velja Sigríði Jóhannesdóttur í annað sæti á lista Samfylkingarinnar í prófkjörinu núna 4. nóvember eigum við kost á að koma á þing samviskusamri, duglegri og hæfri konu með fjölbreytta reynslu.

 

 

Sólveig Þórðardóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024