Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kjósum nýja forystu í Vogum
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:52

Kjósum nýja forystu í Vogum

Undanfarin tvö kjörtímabil hefur E-­listinn verið í meirihluta í sveitarfélaginu Vogum. Segja má að flokkurinn hafi staðið sig með prýði fyrri hluta þess. Því miður er ekki hægt að segja það sama með núverandi kjörtímabil sem nú er senn á enda.

Oddviti E-listans sagði í ávarpi sem birtist með kosningablaði sem dreift var inn á öll heimili í Vogum nýlega að sveitasjóður hefði verið í góðu jafnvægi undanfarin átta ár að undanskyldum síðustu tveimur árum en slíkt hefði verið viðbúið í ljósi aðstæðna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Því miður getur oddviti E-listans ekki skellt skuldinni af lélegri rekstrarafkomu sveitasjóðs í Vogum á Covid-19. Sveitasjóður var þegar farinn að skila tapi árið 2019 áður en Covid-19 skall á. Þá voru tekjur sveitarfélagsins á árunum 2020 og 2021 hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Árið 2020 nam halli á sveitasjóði í Vogum 190 milljónum króna og árið 2021 nam tapið 170 milljónum króna. Hvort þessi lélega fjármálastjórn undir forystu E-listans skýrist af vankunnáttu á fjármálalæsi eða því að flokkurinn sé einfaldlega orðinn þreyttur á því að fara með völd í sveitarfélaginu er ekki gott að segja. Að skýla sig á bak við það að erfið staða skýrist af áhrifum Covid-19 stenst að minnsta kosti ekki þar sem tekjur sveitarfélagsins urðu meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Við upphaf núverandi kjörtímabils var sveitarfélagið Vogar eitt skuldminnsta sveitarfélag landsins. Meirihluti E-listans hefur hins vegar þrefaldað skuldir þess við Lánasjóð sveitarfélaga á kjörtímabilinu. Á árunum 2019 til 2021 var farið í 560 milljón króna fjárfestingar á sama tíma og tap á sveitasjóði nam um 400 milljónum króna. Það þarf ekki mikla hagfræðiþekkingu til þess að sjá að slíkt er bæði óskynsamlegt og með áframhaldi á slíkri stefnu verðar skuldir sveitasjóðs Voga fljótlega ósjálfbærar. Líkt og að heimili myndu reka sig á yfirdrætti í engu samræmi við tekjur fólks.

Á lista Sjálfstæðismanna og óháðra má finna mikið af frambærilegu fólki. Þar er fólk sem hefur þegar öðlast góða þekkingu á málefnum sveitarfélagsins eftir að hafa setið í sveitarstjórn og í nefndum á þess vegum.  Einnig er mikið af nýju fólki með góða reynslu og má þar nefna einn fyrrverandi fjármálastjóra sveitarfélags og annan lögfræðing sem starfaði hjá Umboðsmanni skuldara.

Kjósum nýja forystu í Vogum á kjördag næstkomandi laugardag þann 14. maí. Sjálfstæðismenn og óháðir vilja koma á ábyrgri fjármálastjórn og hverfa frá þeim hallarekstri sem E-listinn hefur stundað frá árinu 2019. Það er ekki gott fyrir neitt sveitarfélag að vera með sama fólk í forystu í meira en tvö kjörtímabil. Vogar eiga betra skilið til að geta vaxið og dafnað sem best á komandi árum.

Annas Jón Sigmundsson,
6. sæti á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra í Vogum.