Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Kjördæmi tækifæranna
Fimmtudagur 26. október 2006 kl. 09:21

Kjördæmi tækifæranna

Kjördæmið okkar – Suðurkjördæmi er flott kjördæmi. Hér höfum við orkuna, sjávarútveginn, blómlegan landbúnað og við höfum alþjóðaflugvöll, auk margs annars sem hægt væri að telja upp. Í kjördæminu eru framtíðarmöguleikarnir miklir. Það er okkar sem hér búum að vinna úr þessum möguleikum sameiginlega. Að því vil ég vinna. Ein af grunnforsendum allrar uppbyggingar eru samgöngur. Þess vegna er afar brýnt að taka verulega á í samgöngumálum. Það þarf að tvöfalda Suðurlandsveginn að Árborg, klára Suðurstrandarveg og ná fram ásættanlegri lausn á samgöngumálum fyrir Vestmannaeyjar auk vegabótum ýmissa þjóðvega bæði á Suðurlandi og á Reykjanesi. En möguleikar okkar liggja víðar, í ferðaþjónustu, menningarmálum, menntamálum, svo fátt eitt sér nefnt.

Tilfærsla verkefna milli stjórnsýslustiga.
Sjálfstæðismenn eru sterkir í sveitarstjórnum í Suðurkjördæmi. Frábært fólk sem horfir fast fram á veginn og er tilbúið til að taka við nýjum verkefnum. Tilflutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaganna er mál sem komið er á dagskrá. Sveitarfélögin hafa lýst vilja sínum til að taka við verkefnum á sviði heilbrigðis-, mennta- og félagsmála. Málaflokkar sem eiga mun betur heima hjá sveitarfélögum þar sem góð þjónusta í heimabyggð verður tryggð. Um tilfærslur þarf að semja og tryggja að nægilegt fjármagn fylgi til sveitarfélaganna.

Gott teymi
Ég hef verið bæjarfulltrúi all lengi í Reykjanesbæ, sveitarfélag sem hefur sótt fast fram á undanförnum árum. Við höfum gjörbreytt ímynd og ásýnd sveitarfélagsins. Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ erum gott og samstilt teymi undir forystu okkar góða bæjarstjóra, þannig næst árangur.
Hvers vegna er ég að draga þetta fram nú kann einhver að spyrja. Jú, ég hef löngun til að taka þátt í samskonar teymisvinnu með góðu sjálfstæðisfólki sem mun veljast á listann í prófkjörinu 11. nóv. Það þarf samstiltan hóp þingmanna sem speglar allt kjördæmið og í samvinnu við íbúa þess að hefja þetta flotta kjördæmi okkar til enn frekari vegs og virðingar en nú er.


Björk Guðjónsdóttir
Býður sig fram í 3. til 4. sætið
í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi
11. nóvember nk.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024