Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 30. september 1999 kl. 23:22

Kjartan Már Kjartansson, varaforseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar skrifar: HVAÐ GERIST NÆST?

Um fátt hefur meira verið talað í Reykjanesbæ síðustu daga en afgreiðslu bæjarstjórnar á umsókn Jóns M. Harðarsonar um vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn Strikið í Grófinni. Eins og kunnugt er fór atkvæðagreiðslan þannig að tillaga um að staðnum yrði veitt leyfi til þess að selja áfengi, frá klukkan tólf á hádegi til klukkan eitt eftir miðnætti virka daga og til klukkan þrjú eftir miðnætti um helgar, var felld með 6 atkvæðum gegn 5. Önnur tillaga um skemmri opnunartíma féll á jöfnu, 4 atkvæði gegn 4 en 3 bæjarfulltrúar sátu hjá. Undirritaður greiddi atkvæði með báðum tillögunum enda tel ég ekki grundvöll fyrir því í lögum að hafna umsókinni, óháð því hvað mér finnst um eðli þeirrar megin skemmtunar sem fram átti að fara á staðnum, nektardans. Umsækjandinn uppfyllti öll skilyrði sem kveðið er á um í lögum. Afgreiðsla bæjarstjórnar hlaut að verða lúta gildandi lögum en ekki persónulegu, siðferðislegu mati bæjarfulltrúa. Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist næst. Umsækjandinn hyggst leita réttar síns. Ef afgreiðsla bæjarstjórnar reynist ólögleg gæti það haft í för með sér kostnað fyrir bæjarsjóð. Því er ábyrgð þeirra bæjarfulltrúa sem höfnuðu umsókninni mikil. Ekki aðeins getur bæjarsjóður orðið fyrir fjárhagslegu tjóni heldur hefur eigandi staðarins einnig lagt mikið undir. Fróðlegt verður að sjá hvernig aðrar umsóknir um vínveitingaleyfi verða afgreiddar í framtíðinni af bæjarstjórn. Í lögum um vínveitingaleyfi er þess nefnilega hvergi getið að bæjarfulltrúar eigi að láta fyrirhugaða skemmtidagskrá á stöðunum hafa áhrif á ákvörðun sína. Því tel ég að með þessari afgreiðslu hafi bæjarstjórn brotið jafnfræðisregluna sem á að tryggja þegnum þessa lands jafnan rétt til athafna. Það eina sem bæjaryfirvöld gætu gert væri að ákveða hámarksfjölda vínveitingastaða í sveitarfélaginu og hafna umsóknum á grundvelli þeirrar ákvörðunar. Þá væri eðlilegast að gefa út þá yfirlýsingu strax þannig að einstaklingar og fyrirtæki færu ekki út í að fjárfesta í breytingum og framkvæmdum á veitingastöðum til þess að uppfylla kröfur sem settar eru fram í lögum, en það þarf að gera áður en hægt er að sækja um vínveitingaleyfi. Ég tel að bæjarstjórn hefði átt að samþykkja tillögu um að veita veitingamanninum á Strikinu vínveitingaleyfi og láta svo gesti veitingastaðarins dæma um gæði skemmtunarinnar því ef starfsemin hefði orðið af einhverju því tagi sem bæjarbúar teldu óæskilega hefði aðsókn eflaust orðið léleg og rekstrargrundvöllur því tæplega fyrir hendi. Ég veit að fjöldi bæjarbúa er mér ósammála og á annarri skoðun. Fjöldi fólks hefur komið að máli við mig og látið í ljós skoðanir sínar. Þótt mun fleiri bæjarbúar hefðu skrifað undir mótmæli en raun bar vitni hefði það engu breytt. Ég hefði ekki treyst mér til þess að greiða atkvæði gegn tillögunni því þá hefði ég þurft að brjóta lög og sem ábyrgur bæjarfulltrúi gat ég það ekki. Það hefur ekkert að gera með hvað mér finnst um nektardansstaði almennt. Við verðum að fara eftir gildandi lögum hverju sinni. Bæjarfulltrúar geta ekki leyft sér að brjóta lög eða reglur eða halda að bæjarstjórn eigi að vera siðgæðissamviska bæjarbúa. Ég treysti bæjarbúum til þess að meta það upp á eigin spýtur hvort þeir sækja nektardansstaði eða ekki. Aðalatriðið er að ef einhver vill bjóða bæjarbúum upp á það val, og ekki er búið að ákveða að takmarka fjölda vínveitingastaða, eiga bæjarbúar rétt á því að geta valið sjálfir. Kær kveðja Kjartan Már Kjartansson, varaforseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024