Kistugerði, sögu- og menningarmiðstöð
Kæru Garðmenn.
Ég hef hug á því að koma upp sögu- og menningarmiðstöð í Garðinum með sögu Garðs að leiðarljósi.
Síðustu tvö ár hef ég sent bæjaryfirvöldum bréf vegna þessa, en fengið höfnun í bæði skiptin og rökin fyrir því ekki réttlætanleg að mínu mati.
Samkomuhúsið í Garði var byggt upp úr aldamótunum 1900 og hefur ætíð verið menningarhús og er Garðbúum kært. Því tel ég tilvalið að sögu Garðs sé haldið á lofti í húsinu í máli, myndum svo og með leik- og kvikmyndasýningum.
Þar verði einnig rými og aðstaða fyrir aðra fjölbreytta lista- og menningarstarfsemi.
Þá er átt við:
• Ljósmynda- og hreyfimyndasafn Garðs í fundarsalnum.
• Leiksýningar á sögusviðinu um merka þætti í sögu og byggðaþróun Garðs.
• Kvikmyndasýningar í samvinnu við Steinboga og fleiri aðila.
• Myndlistarsýningar.
• Fræði- og sagnakvöld á sögusviðinu.
Síðustu 10 ár hef ég safnað gríðarlega miklu efni og hef í mínum höndum þúsundir ljósmynda, gamalla og nýrra, einnig hundruð spóla með kvikmynduðu efni. Nú vantar sárlega aðstöðu til að vinna úr efninu og koma því á framfæri, til dæmis með sýningum.
Ég hef því ákveðið að fara þá leið að safna undirskriftum frá ykkur, kæru Garðmenn, og skora á bæjaryfirvöld að taka jákvætt í þetta erindi. Ég
mun ganga í hús í Garðinum eftir áramót og safna undirskriftum og kynna þær hugmyndir sem ég er með um húsið.
Virðingarfyllst,
Guðmundur Magnússon