Kirkjan mín, kirkjan þín, kirkjan okkar allra
Keflavíkurkirkja 100 ára.
Þann 14 febrúar nk. verður Keflavíkurkirkja 100 ára. Afmælisins verður minnst með myndarlegum hætti sunnudaginn 15. febrúar, en þá verður hátíðarmessa kl. 14 og um morguninn verður barnaguðsþjónusta kl. 11. Veitingar verða bornar fram að loknum báðum athöfnunum. Þessara merku tímamóta verður minnst á margvíslegan hátt. Frá því á síðasta ári höfum við verið með mánaðarlega viðburði í kirkjunni undir yfirskriftinni „Gott kvöld í Keflavíkurkirkju“. Þar hafa góðir gestir komið fram og sagt frá kynnum sínum af kirkjunni, tengslum við hana og áhrifum hennar á líf þeirra og starf.
Fyrstur talaði Árni Bergmann rithöfundur um hina gömlu Keflavíkurkirkju, rifjaði upp frásagnir af sr. Eiríki Brynjólfssyni og fjallaði um brunann í Skildi ásamt öðru.
Sigrún Ásta Jónsdóttir safnfræðingur talaði um kirkjuna sem skemmdist í ofsaveðri árið 1902 og sagði sögur frá því þegar núverandi kirkja var reist. Rakel Pétursdóttir, listfræðingur frá Listasafni Íslands, fjallaði um málarann Ásgrím Jónsson sem málaði altarisverkið.
Dr. Gunnar Kristjánsson prófastur ræddi um samstarf milli kirkna á Suðurnesjum í gegnum tíðina og ýmsa merkismenn sem hafa auðgað samfélagið á svæðinu með margvíslegum hætti. Gunnar Eyjólfsson leikari talaði um gömlu dagana í Keflavík, einkum brunann í Skildi.
Magnús Kjartansson söngvari deildi svo með okkur minningum sínum af því að alast upp í nágrenni kirkjunnar, syngja í barnakórnum og sagði frá ýmsum atburðum sem hann tengir við þennan helgidóm.
Merk saga
Keflavíkurkirkja stendur í dag, stílhrein og falleg í miðjum keflvíska bæjarhlutanum í Reykjanesbæ. Kirkjan á sér merka sögu og mig langar til að taka ykkur með mér 100 ár aftur í tímann til þeirrar Keflavíkur sem var á síðasta áratug 19. aldarinnar, þegar hugað var fyrst að byggingu kirkju í þorpinu. Á myndum frá þeim tíma má sjá lítil timburhús í röð meðfram sjónum, stærri timburhús nálægt bryggjunni, þar sem verslanir og pakkhús eru til húsa og loks stórt og reisulegt Fischerhúsið, sem var bæði verslunarhús og íbúðarhús eigenda sinna. Í þorpinu árið 1890 bjuggu 250 manns en árið 1905 hafði þeim fjölgað í 450.
Keflavík byggði tilveru sína á því að þar var verslunarmiðstöð byggðarlagsins og myndarlegar byggingar verslananna settu reisulegan svip á þorpið. Til eru lýsingar á því hvernig byggðin kom ókunnugum fyrir sjónir og sést þar að hún þykir stór og glæsileg á þess tíma mælikvarða. Það var þó ekki allt sem sýndist, fátækt var mikil og vinnudagurinn langur. Á bak við kaupmannshúsin má sjá torfkofa tómthúsmanna, sem fluttust til kaupstaðarins til að leita sér að lífsviðurværi. Vandamál voru með vatn og brunnar fáir. Sóðaskapur var almennur og erfitt að útrýma hlandforum við húsin. Rottur voru hinn mesti skaðvaldur og eina ráðið við þeim er að halda ketti við hvert hús.
Það er á engan hátt hægt að bera saman líf fólks á þessum tímum og á okkar dögum. En ég held að það sé nauðsynlegt að reyna setja sig í spor frumbyggjanna og sjá líf þeirra í raunsönnu ljósi. Það var ekkert rafmagn, enginn sími, það voru engar götur, fólk fór flestra ferða fótgangandi eða með skipum. Allir flutningar á landi voru á hestum. Vöruskortur var stöðugur í landinu enda gátu aðeins örfáir keypt nema það allra nauðsynlegasta.
Kaupmenn réðu miklu um hag fólksins. Haft var eftir Keflavíkurbúa um lífið í þorpinu að „Duus var allsráðandi og svo mikið var ófrjálsræðið að Duus átti alla, allt fór í gegnum hendurnar á þeim, allt sem aflað var og annað”. Líklega er nú þarna um ýkjur að ræða en engu að síður sannleikskorn í ummælunum, sérstaklega eftir að fyrirtækið hafði keypt upp hinar tvær verslanirnar. Fyrirtækið hafði um aldamótin 1900 yfir næstum allri launavinnu í þorpinu að ráða.
En í hugum fólksins var kirkjubygging ofarlega á baugi. Um leið og menn voru að berjast í bökkum við að sjá sér og sínum farborða við aðstæður, sem við í dag myndum telja ömurlegar, var fólkinu í mun að huga að andlegri velferð sinni og sinna og kirkjubygging var meðal þeirra framfara sem það setti efst í forgangsröðina. Þetta hlýtur að segja okkur sitthvað um trú og mikilvægi trúar í örbirgðarsamfélagi.
Úr starfi Keflavíkurkirkju. Sönghópur Suðurnesja ásamt Magnúsi Kjartanssyni.
Áfall í ofsaveðri
Frá fornu fari tilheyrði Keflavík Útskálasókn, en þar hefur verið kirkja a.m.k. frá miðri 14. öld. Ákvörðun um að reisa kirkju í Keflavík var tekin 1892 og er því ljóst að það var mikið áfall þegar nýbyggð kirkjan fauk í ofsaveðri 14-15. nóvember 1902. Eftir stóðu miklar skuldir og þó reynt væri að selja við úr kirkjunni dugði það lítið upp í skuldirnar. Í framhaldi af þessum atburðum var ákveðið að Keflavík skyldi verða sérstök sókn og var það frá 1906. Þá kom til sögunnar Ólafur Á. Ólafsson, verslunarstjóri Duus verslunarinnar. Hann bauðst til að greiða helminginn af skuld Keflavíkursóknar við Útskálasókn gegn því að Keflvíkingar greiddu hinn helminginn á móti. Einnig lofaði hann að greiða helming af kostnaði við byggingu nýrrar kirkju um leið og Keflvíkingar væru búnir að safna fyrir hinum helmingnum án þess að skuldsetja sig. Um leið og þetta var skjalfest komst skriður á málið. Rögnvaldur Ólafsson, sem þá var titlaður byggingarmeistari í Reykjavík, var fenginn til að teikna kirkjuna, en hann hafði þá nýlokið við að teikna Hafnarfjarðarkirkju.
Það má alveg velta fyrir sér rausnarskap Ólafs Á. Ólafssonar og líka hvað lá að baki þeirri staðreynd að einn maður hafði burði til að gefa hálfa kirkju og rúmlega það en kirkjan kostaði 17.000 krónur uppkomin. Ólafur og systir hans, ekkjufrú Kristjana Duus, borguðu 10.000 kr. Árin sem Ólafur var verslunarstjóri í Duusverslun bjó hann í Kaupmannahöfn á vetrum, en kom með vorskipum til Keflavíkur og átti þar sitt sumarheimili ásamt eiginkonu sinni, Ástu Jacobsen. Ásta sýndi umhyggju fyrir börnunum í þorpinu og hélt þeim veislu sumar hvert.
Kirkjan er einstaklega vel heppnuð og falleg bygging, hún er stílhrein og einföld að gerð en yfir henni er fágun og tign. Hún hefur á sínum 100 árum farið í gegnum margvíslegar endurbætur og nú síðast 2012 var kirkjuskipinu komið í upprunalegt horf, að svo miklu leyti sem við var komið og hentaði nútímanum. Þeim endurbótum er enn ekki að fullu lokið. Eftir er að setja upp nýja glugga og svo er eftir að stækka kórloftið að ótöldu orgelinu, en það þarfnast umtalsverðra endurbóta. Er verið að safna í sjóð svo unnt verði að takast á við það verkefni áður en langt um líður. Áformað er að gluggarnir verði komnir upp á afmælisárinu. Hitt er aftur á móti óvíst hvort hægt verði að stækka kórloftið og endurbæta orgelið á næstu árum en stefnt er að því.
Saga Keflavíkurkirkju er sannarlega merkileg og áhugaverð um marga hluti. Söfnuðurinn var mjög áhugasamur um bygginguna og karlar og konur fórnuðu miklum tíma og gáfu kirkjunni fé og muni. Kvenfélagið Freyja var fyrst og fremst stofnað til að prýða Keflavíkurkirkju áður en hún var vígð og svo einnig síðar. Safnaði félagið fé m.a. með leikstarfsemi. Ég hef alltaf hugsað með hlýju til þeirra kvenna sem söfnuðu fé og fengu nýútskrifaðan listmálara, Ásgrím Jónsson, til að mála altaristöflu kirkjunnar af Fjallræðunni og láta smíða fagra umgjörð um hana. Ég veit að margir eru sammála mér um það að þeir þreytist aldrei að horfa á þá fögru mynd þegar þeir sækja guðsþjónustur kirkjunnar. Hvað hugsuðu þessar bláfátæku konur sem eyddu sparifé sínu til að koma þessu listaverki upp í kirkjunni sinni? Voru þær ef til vill að hugsa um erfiðu stundirnar sem þær ef til vill höfðu upplifað eða vissu að þær ættu eftir að upplifa, við að fylgja sínum nánustu síðasta spölinn og vissu að fagurt málverkið myndi létta þeim stundina? Eða voru þær að hugsa um stundina í kirkjunni, þegar þær gátu gleymt önnum hversdagslífsins og hlýtt á falleg tónlist og horft á fagra list á meðan þær hlýddu á orð guðs? Keflavíkurkirkja 100 ára
Skírn í Keflavíkurkirkju.
Stórhugur
Hvernig sem á það er litið verður aldrei hægt að komast hjá því að dást að þeim stórhug sem að baki byggingar Keflavíkurkirkju var. Kirkjan rúmaði meira en helming sóknarbarna í sæti þegar hún var byggð og ef við ættum að byggja sambærilegt guðshús í dag þyrfti það að rúma 3500 manns í sæti. Til þess dygði einungis Hallgrímskirkja og varla þó.
Keflavíkurkirkja hefur gengið í gegnum ýmsar breytingar á 100 ára æviferli sínu og mun þeim verða gerð skil í öðrum greinum á afmælisárinu. Á sjötíu ára afmæli kirkjunnar var gefið út veglegt afmælisrit. Í því eru margar merkilegar greinar og eins og segir í grein sóknarprestsins Ólafs Odds Jónssonar, þá táknar orðið kirkja upprunalega „hús drottins”. Þar eru eftirtektarverð orð um trúna og langar mig að enda þetta á tilvitnun í orð hans. „Trúin er gjöf Guðs og verður til fyrir vitnisburð fyrri kynslóða. Meðan sá vitnisburður trúar varir lifir kirkjan. Sá sem lætur sig vitnisburð og reynslu fyrri kynslóða engu skipta, er hjálparvana gagnvart eigin samtíð.“
Með því að rifja upp sögu þessa helgidóms og rækta þær minningar sem í kringum hann hafa orðið viljum við hlúa að reynslu fyrri kynslóða og með því fáum við betur fótað okkur í eigin samtíma og þeim áskorunum sem við mætum á komandi tímum.