Keilir viðurkenndur í ríkisstjórn
Yngsti skóli landsins, Keilir á Ásbrú, á fjögurra ára afmæli þann 7. maí. Á þessum fjórum árum hefur margt gerst. Nú búa um 1800 manns í skólahverfinu Ásbrú og nemendur Keilis eru á sjötta hundrað. Yfir 700 nemendur hafa fengið prófskírteini frá Keili – skírteini sem veita þessu dugmikla fólki ný tækifæri í lífinu. Segja má að þessi fjögur ár hafi verið ævintýri líkust. Þegar bandaríski herinn fór af landinu í árslok 2006 urðu kaflaskil í sögu landsins – ekki síst á Suðurnesjum. Herinn burt, um 1000 manns misstu atvinnu og eftir stóðu mannvirki er hýst höfðu allt að sex þúsund manna þorp. Ekki var sjálfgefið hvað tæki við.
Skýr stefna um þekkingarþorp
Af mikilli framsýni og djörfung mótaði stjórn Þróunarfélagsins skýra stefnu um uppbyggingu svæðisins þar sem áherslan er á nýsköpun og atvinnutækifæri. Í því skyni var Keilir stofnaður – til að leggja grunn að nýbreytni, vinna með sprotafyrirtækjum og fylla í eyður í menntakerfinu. Segja má að það markmið hafi náðst þó tíminn sé skammur. Um 1800 íbúar á Ásbrú, yfir 50 fyrirtæki skráð þar og á sjötta hundrað nemenda hjá Keili sem hefur markað ný spor í íslensku menntakerfi. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Kadeco undir forystu Kjartans Eiríkssonar sem og stjórn Keilis með Árna Sigfússon í forsæti fyrir einkar öfluga forystu sem skilað hefur þeim árangri sem raun ber vitni.
Til jafns við aðra skóla?
Í upphafi má segja að Keilir hafi verið ígildi þorsks á fjárlögum. Fyrsta árið var slumpað á upphæð „vegna aflabrests á Vestfjörðum og Suðurnesjum.“ Skyldi það standa í tvö ár. Svo kom kreppan, niðurskurður á fjárlögum og skyndilega var Keilir horfinn þaðan. Þekkt er að nýjum liðum gengur hægt að komast „inn í kerfið“. Hefur Keilir hressilega fundið fyrir því. Fyrir tveimur árum voru engar tillögur til Keilis við upphaf fjárlagagerðar enda „þorsktímabilinu“ lokið. Á síðasta ári fékk Keilir ekki nema lítinn hluta af því sem aðrir skólar fengu fyrir hvern nemanda. Í upphafi þessa árs var útlitið heldur dökkt. Aðsókn nemenda meiri en nokkru sinni en við sáum ekki fram á annað en uppsagnir og niðurskurð vegna fjárskorts. Mikil óvissa hefur ríkt meðal starfsmanna. Það sem í raun hefur haldið lífi í okkur er ótrúleg seigla og staðfesta allra sem að Keili standa. Við höfum átt fjölmarga fundi með sveitarstjórnarmönnum, þingmönnum kjördæmisins, embættismönnum, ráðherra menntamála og fleirum. Skilaboð allra hafa verið skýr: Höldum starfi Keilis áfram.
Samstaða skilaði árangri
Rétt fyrir Opna dag Keilis fengum við svo þær frábæru fréttir að ríkisstjórn hefði samþykkt aukafjárveitingu til Keilis. Bar þar árangur hin þétta samstaða allra sem að málum koma. Tíðindin gátu ekki komið á betri tíma. Öllum er létt því Keilir mun sigla áfram af fullum krafti og veita fólki ný tækifæri í lífinu. Í framhaldi hefur verið boðaður þjónustusamningur milli Keilis og menntamálaráðuneytisins. Þar með er Keilir kominn inn í kerfið – kominn til að vera. Það yrði of langt mál að telja upp alla þá sem komið hafa að málinu. Mestu máli skiptir að við höfum fundið grjótharða samstöðu allra – þvert á flokka, sveitarfélög og stofnanir. Þess vegna náum við árangri. Auk stjórnarmanna Keilis verð ég þó að nefna þingmannahópinn, sérstaklega fyrsta þingmann Suðurkjördæmis, Björgvin G. Sigurðsson, formann fjárlaganefndar, Oddnýju G. Harðardóttur, sveitarstjórnarmenn og þá ekki síst menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Oddvitar hinna flokkanna fyrir Suðurkjördæmi hafa vakað vel yfir málinu. Og svo fjölda annarra sem hafa sýnt með verkum sínum að þau skilja mikilvægi menntunar fyrir land og þjóð. Þakka ber það sem vel er gert.
Keilir á fjögurra ára afmæli þann 7. maí. Við hefðum vart getað fengið betri afmælisgjöf og fyrir það erum við, nemendur og starfsfólk Keilis, þakklát.
Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri.