Keflavíkurflugvöllur
Mjög lítið hefur verið fjallað í kosningarbaráttunni um mikilvægi varnarliðsins og Keflavíkurflugvallar í atvinnulegu tilliti. Eins og mörgum er kunnugt hafa staðið yfir um alllangt skeið viðræður milli Íslenskra og Bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarliðsins og með hvaða hætti varnarsamningurinn verði uppfylltur. Mörgum frambjóðendum vinstriflokkanna finnst atvinna á Keflavíkurflugvelli og þeirra sem þar starfa lítils eða einskis virði og verða þeirri stund fegnastir ef þeir fá tækifæri til að loka varnarstöðinni og það sem fyrst.Það er nú einu sinni svo að starfssemi varnarliðsins og verktaka sem vinna fyrir það skiptir sveitarfélögin á Suðurnesjum og íbúa þeirra gífurlega miklu máli, ekki eingöngu þá sem vinna beint hjá varnarliðinu heldur einnig fjölda starfmanna þjónustu fyrirtækja, sérstaklega í Reykjanesbæ. Ljóst er að framundan eru mjög viðkvæmir og erfiðir samningar og skiptir miklu máli hverjir leiða samningaviðræðurnar af okkar hálfu. Sterkar líkur eru fyrir að niðurstaða fáist í sumar. Nú er komið að þér kjósandi góður, hvernig ætlar þú að verja atkvæði þínu á kjördag? Hér er ekkert gamanmál á ferðinni, þú ákvarðar með atkvæði þínu hverjir stýri ferðinni. Það er engum til framdráttar að kjósa flokka eða sérframboð sem eru á móti veru varnarliðsins eða það skiptir þá engu máli, atkvæðum sem eytt er á þá er á glæ kastað. Ég vil biðja þig kjósandi góður að íhuga þessi mál vandlega og ég er viss um að sameiginleg niðurstaða okkar er að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og velja X D á kjördag 10.maí nk.
Ellert Eiríksson
Ellert Eiríksson