Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Keflavík er magnað félag
Föstudagur 6. apríl 2018 kl. 08:00

Keflavík er magnað félag

Það þarf ekki annað en að líta við í íþróttahúsinu í Keflavík til að sjá hversu megnugt félag Keflavík er í raun. Á hverjum degi eru þar viðburðir, fundir, æfingar, kappleikir og mannfögnuðir. Hundruð sjálfboðaliða og fagfólks í íþróttum mæta daglega í félagsheimilið og leggja nótt við nýtan dag til þess að ryðja brautina fyrir þá sem vilja stunda sína keppnisíþrótt.

Þannig fyllist sannur Keflvíkingur af stolti þegar hann finnur þetta hugarfar, þennan keppnisanda og þessa samstöðu sem þarf til að ná árangri. Þessi magnaði kraftur hefur glögglega komið fram hjá körfuboltaliðum Keflavíkur síðustu vikur, þar sem stuðningsmenn og leikmenn hafa sýnt það í verki hve langt er hægt að ná þegar Keflavíkurhjartað slær í takt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lið Keflavíkur í æfingaleik á Spáni gegn KA.

Það er mikill ljómi yfir knattspyrnufólkinu þessa dagana. Þar á bæ ríkir eftirvænting fyrir komandi keppnistímabili sem hefst í lok apríl og undirbúningur fyrir það stendur nú hvað hæst. Konur í meistaraflokki stefna á að komast í efstu deild og karlar í meistaraflokki eru nú í óða önn við að undirbúa sig fyrir endurkomu í efstu deild. Í yngri flokkum knattspyrnunnar fer uppeldisstarfið fram, en þar er grunnurinn lagður að framtíð knattspyrnunnar í Keflavík og jafnvel íslenska landsliðsins.
Með þennan kjarna af áhugafólki og fagfólki sem stendur á bak við alla okkar efnilegu iðkendur í knattspyrnu, þá er ég ekki í nokkrum vafa um að Keflavíkingar muni á ný fagna velgengni á knattspyrnuvellinum.

En góðir hlutir gerast helst þegar margir koma sameiginlega að málum og sýna samstöðu, en aðeins þannig mun okkur takast að ná þessu mikilvæga takmarki sem er að koma knattspyrnuliðum Keflavíkur aftur á sigurbraut. Ég sé fyrir mér bæði lið meistaraflokks Keflavíkur í efstu deild að keppast um efstu sætin. Þar á Keflavík heima! Ég sé líka fyrir mér fjölda yngri Keflvíkinga stíga upp og takast á við nýjar áskoranir með meistaraflokkum Keflavíkur og jafnvel einnig íslenska landsliðinu. Með samstilltu hugarfari okkar allra verður ekki langt að bíða þess að draumar okkar rætist og við sjáum bikara fara á loft.
Kæru Keflvíkingar, tökum höndum saman og sýnum styrk okkar með því að taka öll til verks við að koma Keflavík á sigurbraut. Styðjum liðin okkar, hrósum þeim sem leggja sig fram við að ná árangri, og tökum vel á móti öllum erindum sem snúa að hagsmunum Keflavíkur sem íþróttafélags. Framundan eru nokkur fjáröflunarverkefni sem ég vil sérstaklega biðja ykkur að taka vel á móti, eins og t.d. með því að mæta á viðburði eins og herrakvöld og konukvöld Keflavíkur þann 18. apríl nk., með því að kaupa árskort á völlinn fyrir sumarið, eða jafnvel að veita okkur stuðning þinn með framlagi í gegnum fyrirtæki ykkar.

Áfram Keflavík!

Sigurður Garðarsson,
formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.