Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Aðsent

Kattafárið í Suðurnesjabæ
Sandgerði.
Sunnudagur 5. maí 2019 kl. 08:00

Kattafárið í Suðurnesjabæ

Skömmu fyrir páska fluttu Víkurfréttir frásögn af því að eitrað hefði verið fyrir ketti – að því að talið er. Ámóta fréttir berast víðar af landinu. Það er hryggilegt, að fólk skuli finna sig knúið til að grípa til slíkra örþrifaráða til að losna við kettina. Þörf eiganda hunda og katta til að strjúka þeim, leika sér við þá og að þeim, spjalla við þá og kenna þeim hinar og þessar kúnstir, er vel skiljanleg. Aftur á móti er torskildari sú tegund kattahalds, sem felst í því að vista gæludýr sitt meira eða minna í görðum og híbýlum grannanna. Það er alkunn hegðun katta að stinga sér inn um opnar gáttir, róta og gramsa, sníkja fæðu, drepa fugla og losa bos sitt í sandkassa og beð eða einhvers staðar innan dyra.  Varla þarf að fjölyrða um óyndi og óþrifnað af þessu. Fyrst og síðast er fjölda fólks – jafnvel allt að þriðjungi, sé ástandið svipað og í Bandaríkjum Norður-Ameríku - hætta búin sökum ónæmis og öndunarsjúkdóma, þó allra helst þeim, sem eru svo ólánssamir að búa við bráðaofnæmi fyrir hári, húðskæni og vessum katta. Þeir geta verið í bráðri lífshættu. Sömu áreiti geta sömuleiðis leyst annars konar ofnæmi úr læðingi.

Því er það, að löggjafinn hefur sett lög um kattahald. Einkum er um að ræða tvo lagabálka; lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994,  með síðari breytingum 15. apríl 2011, og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Tilgangur löggjafans með fyrrnefndu lögunum er þessi: „Tillagan byggist fyrst og fremst á að nokkuð er um að börn og fullorðnir hafi ofnæmi fyrir þessum dýrum. Getur slíkt ofnæmi haft það alvarleg áhrif að fólk geti jafnvel þurft að flytja úr eigin íbúðarhúsnæði gangi ekki að fá skilning sameigenda á þessu vandamáli. Er breytingunum ætlað að koma í veg fyrir slíkar aðstæður.“

Public deli
Public deli

Það er ekki einungis svo, að kettir geti skapað heilsuvá, heldur stafar einnig af þeim ákveðin slysahætta, einkum fyrir börn, svo og sýkingarhætta. Því er það að „[f]yrirbyggja [skuli] sýkingar hjá mönnum af völdum spóluorma í köttum.“ Í lögunum er einnig tiltekið, að hundar og kettir megi ekki vera á sameiginlegri lóð. Ennfremur er svo mælt fyrir um í lögum, að „[g]æludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði. ... Ónæði er veruleg og ítrekuð truflun eða áreiti sem tilheyrir ekki því umhverfi sem um ræðir, s.s. vegna óþrifnaðar, ólyktar, hávaða, ...“ Húsfélögum er veitt heimild til að vernda íbúa. „Húsfélagið getur ... lagt bann við dýrahaldi ef það veldur öðrum íbúum verulegum ama, ónæði og truflunum og eigandi dýrsins neitar að gera bót þar á.“ Sömu heimild er sveitarfélagi veitt.

Sveitarfélög á Suðurnesjum gerðu samþykkt um kattahald 28. apríl 2004. Níunda grein hennar hljóðar svo: „Leyfishafa er skylt að gæta þess að köttur hans valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Leyfishafa ber að greiða það tjón sem köttur hans veldur, svo og allan kostnað við fjarlægja dýrið gerist þess þörf.“

Það er sjálfsögð regla að reyna hið góða samtal, þegar ágreiningur granna rís um kattahald samkvæmt téðri samþykkt. Dugi það ekki til, skal heilbrigðiseftirlitið skerast í leikinn samkvæmt lögum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja neitar hins vegar að beita sér. Greinargerð eftirlitsins er þessi:

„Í samþykkt um kattahald á Suðurnesjum er ekki að finna ákvæði um haldlagningu katta, nema þegar um villi- eða flækingsketti er að ræða.  Þá er ekki tekið með skýrum hætti á ofnæmi sem kettir kunna að valda. Til þess að stjórnvald eins og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja geti aðhafst á grundvelli samþykktarinnar þarf að sanna að refsiverður verknað hafi átt sér stað, þ.e.a.s. að eigandi dýrsins hafi með sinni háttsemi brotið reglur. Embættið þarf með öðrum orðum að sanna eigandi hafi með ásetningi valdið öðrum tjóni, óþægindum, óþrifum o.s.frv. Ekki nægir að nágranni telji sig verða fyrir þessum miska. Það þarf að sanna að tjón sé af völdum ... [tiltekins] dýrs auk þess sem meta þarf það í krónum og aurum. Ónæði og röskun á ró eru óljós hugtök í lögfræðilegum skilningi og til sönnunar á slíku verða starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins annað hvort að hafa sannreynt það sjálfir eða fá það staðfest í lögregluskýrslum.  Óljóst er hvort samþykktin taki yfir  heilsutjón af völdum kattarofnæmis.  Ef svo er þarf að sanna að ... [tiltekinn] köttur hafi valdið ofnæmisviðbrögðum en ekki eitthvað annað. Það er ekki að Heilbrigðiseftirlitið vilji ekki hlutast til í málum sem þessum, heldur frekar hitt að við teljum hendur okkar bundnar af gildandi löggjöf og þeim úrskurðum og dómum sem vísa eiga veginn um framkvæmdina.“

Tja! Nú er úr vöndu að ráða. Hvað skal til bragðs taka? Ugglaust myndi það einfalda skriffinnskuflækjurnar, ef hið nýja sveitarfélag bannaði lausagöngu katta alfarið. Lög- og stjórnsýslufræðingar mættu einnig skríða undir feld og finna skýringu á því, að framkvæmdarvaldinu takist að snúa sig út úr einföldum texta laga, reglugerða og samþykkta.

Arnar Sverrisson