Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kattaást í Grindavík og Suðurnesjabæ
Laugardagur 6. júlí 2019 kl. 06:00

Kattaást í Grindavík og Suðurnesjabæ

Nýverið skýrðu Víkurfréttir frá því, að lausaganga katta yrði áfram leyfð í Grindavík. Samkvæmt reglugerð fyrir öll sveitarfélög á Suðurnesjum er lausaganga katta skilyrt: „Leyfishafa er skylt að gæta þess að köttur hans valdi ekki tjóni, hættu, óþægindum, óþrifum eða raski ró manna. Leyfishafa ber að greiða það tjón sem köttur hans veldur, svo og allan kostnað við fjarlægja dýrið gerist þess þörf.“ 

Svo er að skilja af umgetinni frétt, að stjórnendur Grindavíkur hefðu þegið þá ábendingu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja (HS), að erfitt yrði að framfylgja lausagöngubanni. Það er að sönnu einkennileg ráðgjöf almennt séð. Það er í öllum greinum snúið að framfylgja lögum og reglum. Engu að síður virða reglurnar flestir. Ráðgjöfin fær á sig þversagnakenndan blæ, þegar hún er skoðuð í ljósi viðbragða við erindi undirritaðs til sama stjórnvalds. Erindið hljómaði svo: 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég er íbúi í hinum friðsæla Garði. Bý þar í parhúsi. Við, grannarnir, verðum fyrir stöðugum óþægindum af kattaróféti annars granna, sem veður hér um garða og hús, tætir upp sáningu, gerir þarfir sínar og drepur fuglana, sem við reynum að laða að okkur. Þar við bætist að undirritaður er með ofnæmi fyrir hári katta, þannig að heilsu minni gæti verið hætta búin, því kötturinn sætir stundum lagi og skýst inn í húsið, þegar dyr eru upp á gátt og gluggar  opnir. Þrívegis hefur ástandinu verið lýst fyrir hlutaðeigandi granna og hann góðfúslega beðinn um að halda kettinum frá húsum okkar og görðum. Hann skellir við því skollaeyrum.“ Væntanlega hefur erindi ónefnds Grindvíkings verið svipaðs eðlis.  

Hið áhugaverða svar, sem fékkst með nokkrum eftirgangsmunum, hljómar svo: „Eignarétturinn þ.m.t. eign á dýrum er stjórnarskrárvarinn. Hins vegar er að finna í ýmsum lögum heimild til eignaupptöku ef hlutir eða önnur verðmæti standa í tilteknu sambandi við refsiverðan verknað. Í samþykkt um kattahald á Suðurnesjum er ekki að finna ákvæði um haldlagningu katta, nema þegar um villi- eða flækingsketti er að ræða. Þá er ekki tekið með skýrum hætti á ofnæmi sem kettir kunna að valda.

Til þess að stjórnvald eins og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja geti aðhafst á grundvelli samþykktarinnar þarf að sanna að refsiverður verknað hafi átt sér stað, þ.e.a.s. að eigandi dýrsins hafi með sinni háttsemi brotið reglur. Embættið þarf með öðrum orðum að sanna [að] eigandi hafi með ásetningi valdið öðrum tjóni, óþægindum, óþrifum o.s.frv. Ekki nægir að nágranni telji sig verða fyrir þessum miska. Það þarf að sanna að tjón sé af völdum þessa tiltekna dýrs auk þess sem meta þarf það í krónum og aurum. Ónæði og röskun á ró eru óljós hugtök í lögfræðilegum skilningi og til sönnunar á slíku verða starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins annað hvort að hafa sannreynt það sjálfir eða fá það staðfest í lögregluskýrslum. Óljóst er hvort samþykktin taki yfir  heilsutjón af völdum kattarofnæmis. Ef svo er þarf að sanna að þessi tiltekni köttur hafi valdið ofnæmisviðbrögðum en ekki eitthvað annað. Það er ekki að Heilbrigðiseftirlitið vilji ekki hlutast til í málum sem þessum, heldur frekar hitt að við teljum hendur okkar bundnar af gildandi löggjöf og þeim úrskurðum og dómum sem vísa eiga veginn um framkvæmdina.“

Í svari þessu má t.d. lesa ýmislegt gagnlegt um lög og kattaréttarhöld. Það hefði óneitanlega einnig verið fróðlegt að sjá útleggingu HS á stjórnarskránni um rétt þolenda kattaágangs, bæði með tilliti til heilsufars og eignatjóns, svo og túlkunar á þessu ákvæði í reglugerð um hollustuhætti: „Gæludýr skulu þannig haldin að ekki valdi hávaða, ónæði, óhollustu eða óþrifnaði.“ Fátt er um heilbrigði sagt frá heilbrigðiseftirlitinu. Þó er véfengt, að tilgreind reglugerð taki til heilsutjóns af völdum kattaofnæmis. Samkvæmt orðanna hljóðan er það beinlínis spaugilegt, enda er stjórnsýslan stundum bráðskemmtileg. Ég hlýt að geta gert ráð fyrir því, að HS kunni skil á kattaofnæmi og algengi þess (svona nokkurn veginn). (Líklegt er, að um það bil fjórðungur til þriðjungur manna hafi óþægindi/sjúkdóm af völdum kattahárs og –vessa. Sumir gera sér ekki grein fyrir því.)

HS vill svo gjarnan sinna vinnunni sinni, en saknar skýrrar reglugerðar. Því mætti ætla, Grindvíkingar hefðu verið hvattir til reglugerðarbreytingar, sem ótvírætt bannaði lausagöngu katta eins og víða meðal siðaðra þjóða. Slík reglugerð hefði vafalaust skapað kæti í höllu HS og þar jafnvel borin fram kattarhlandslegin jarðarber eða salat ræktað í kattarkúki. 

Undirritaður leyfir sér hins vegar að skora á sveitastjórnir Suðurnesja að banna lausagöngu katta með þeim rökstuðningi, sem felst í grein þessari og annarri fyrri um efnið í sama miðli. Hver veit nema ástir katta og eigenda þeirra blómstri enn við aukið samneyti á heimavettvangi beggja.

Arnar Sverrisson
Höfundur er ellilífeyrisþegi, áhugamaður um ábyrgt kattahald ásamt góðu katta- og mannlífi.