Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Katrín sem sameiningartákn
Föstudagur 24. maí 2024 kl. 08:46

Katrín sem sameiningartákn

Í störfum mínum sem formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur hafa leiðir mínar og Katrínar Jakobsdóttur legið nokkrum sinnum saman.

Katrín hefur lagt sig fram við að vera í sambandi við verkalýðshreyfinguna í kringum kjarasamninga og hef ég fundið að aðkoma hennar hefur oft skipt miklu máli til að afstýra átökum á vinnumarkaði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar ósköpin dundu yfir Grindvíkinga setti ég mig strax í samband við Katrínu, hún tók strax á móti mér og hefur fundað ítrekað og haldið góðu sambandi í gegnum þær hremmingar sem við Grindvíkingar höfum lent í.

Ég finn kannski best eftir að Katrín steig til hliðar sem forsætisráðherra að tengsl við ríkisstjórnina hafa verið miklu minni og hvernig talsamband við okkur venjulega fólkið í raun rofnaði. Ég þakka henni mikið og vel fyrir sinn þátt í málum okkar Grindvíkinga.

Það er mín bjargfasta trú á að Katrín verði sameiningartákn okkar og ég hef þá trú eftir að hafa unnið með henni í þeim málum sem hér eru talin fyrir ofan. Hún hefur hlustað í þeim málum sem þarf að hlusta og tekið ákvarðanir þar sem þarf að taka ákvarðanir. Fyrir mig skiptir miklu máli að forseti landsins og sameiningartákn þjóðarinnar hlusti á þjóðina sína og geti tekið erfiðar ákvarðanir þegar það þarf. Því við vitum að forseti Íslands er öryggisventill fyrir þjóðina og ég treysti Katrínu til að vera öryggisventill fyrir okkur. Katrín hefur ávallt rætt við mig á hreinskiptinn hátt sem jafningja og verið heiðarleg í öllum okkar samskiptum - það kann ég að meta.

Ég kýs Katrínu, vegna góðra kynna og hvet ykkur hin að gera það sama í komandi forsetakosningum.

Hörður Guðbrandsson,
formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur