Kallinn vill frumkvöðlasjóð
ÞAÐ ER STAÐREYND að 105 manns verður sagt upp hjá Varnarliðinu um mánaðarmótin. Hagræðing hjá Varnarliðinu er skýringin! Er herinn að fara á hausinn? Búast má við enn frekari uppsögnum á næstunni þar sem varnarliðið segir að einungis sé búið að skera niður um 1/3 af því sem á að skera niður. Búast má við því að verktakar missi vinnuna, þar sem búist er við að varnarliðið segi upp samningum við ÍAV og KV.
ÞAÐ ER LJÓST að það þýðir ekkert að ræða við varnarliðið um að draga uppsagnirnar til baka til frambúðar. Það þarf að finna önnur störf fyrir það fólk sem nú hefur misst vinnuna – og kemur til með að missa vinnuna á næstu mánuðum. En hvað er hægt að gera? Hvað á að gera í svona aðstæðum? Kallinn hefur ekki einhverja einhlíta lausn, en að hans mati þarf að koma fjármagni til ungs fólks með hugmyndir.
ÞAÐ HEFUR NEFNILEGA sýnt sig að þegar fjármagn er lagt til frumkvöðla og sprotafyrirtækja, þá mun það skila sér margfalt til baka. Fyrirtækið Kaffitár, sem er nú að byggja glæsilega byggingu við Fitjar er dæmi um slíkt fyrirtæki. Þar kom einn einstaklingur fram með hugmynd og nú er hugmyndin orðin að einu þekktasta fyrirtæki Suðurnesja – og þar er selt besta kaffi landsins.
MARGIR FRUMKVÖÐLAR kvarta undan því að aðgangur að fjármagni sé ekki nægjanlegur. Og upphæðirnar sem settar eru til frumkvöðla eða sprotafyrirtækja eru af skornum skammti. Þetta fyrirkomulag gengur ekki – það þarf að gera eitthvað!
KALLINN ELUR þá von í brjósti sér að sveitarfélög, ríki og stærstu fyrirtækin á svæðinu komi upp sjóði þar sem meginmarkmiðið verður að styðja við bakið á frumkvöðlum með viðskiptahugmyndir. Þar þarf ein manneskja að vera á launum hjá sjóðnum. Hennar hlutverk verður að sjá um samskipti við frumkvöðlana, taka á móti umsóknum og hvetja þá áfram.
SJÓÐSSTJÓRN mun sjá um að veita styrki, en um leið eignast sjóðurinn hlut í viðkomandi viðskiptahugmynd. Þannig verður sjóðurinn beinn þátttakandi í uppbyggingu viðskiptahugmyndar sem síðan verður að fyrirtæki, sem síðan þarf að ráða til sín fólk.
KALLINN ER VISS um að viðskiptahugmyndir myndu streyma inn til slíks sjóðs, allt frá hátækni hugmyndum til viðskiptahugmynda í ferðaþjónustu og sjávarútvegi og allt þar á milli. Á Suðurnesjum býr kraftmikið fólk og þessi landshluti er orðinn hluti af höfuðborgarsvæðinu. Kallinn hvetur alla til að huga að stofnun slíks sjóðs. Hjálmar Árnason alþingismaður hefur haft frumkvæði að því að koma með nýjar hugmyndir á svæðið. Hjálmar er kraftmikill maður sem Kallinn hefur mikla trú á. Hann þarf að fá Jón Gunnarsson þingmann í lið með sér og þeir saman þurfa að leita leiða til að koma slíkum sjóði á laggirnar.
OG TENGT ÞESSU! Kallinn fékk bréf frá nemanda í Tækniháskóla Íslands sem sagði að skólinn væri búinn að sprengja utan af sér húsnæðið og væri í leit að nýju. Nú er tækifærið fyrir sveitarfélögin hér á svæðinu og bjóða Tækniháskólanum góða lóð, aðstoð og styrk til að reisa slíka byggingu hér. Suðurnesin eru réttur staður fyrir Tækniháskólann.
SUÐURNESIN eru einnig rétti staðurinn fyrir Sædýrasafn. Á alþingi hefur nýverið lögð fram þingsályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnina að standa að byggingu slíks safns. Í greinargerðinni kemur fram að búast megi við 250 þúsund gestum á ári í slíkt safn. Bæjarstjórar – takið höndum saman og bjóðið fram lóðir! Sædýrasafnið þarf að vera á svipuðu svæði og Bláa Lónið – við sjáum hvað það er að gera fyrir Suðurnesin.
KALLINN FAGNAR ÖLLUM hugmyndum um atvinnumál og framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Þá fjölmörgu sem hafa hugmyndir hvetur Kallinn til að senda sér póst.
ÞAÐ ÞARF AÐ setja nokkur hundruð milljónir í frumkvöðlasjóð.
Uppbyggingarkveðja, [email protected]