Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 13. febrúar 2003 kl. 14:48

Kallinn: Um pólitík, Hafnargötuna og fleira

HAFNARGATAN er að deyja! Verslanir leggja upp laupana og þjónustan hverfur úr sveitarfélaginu. Á meðan þetta er að gerast koma bæjaryfirvöld með framtíðarsýn sem miðar eingöngu að því að skreyta götuna sjálfa. En er það nóg? Mörg húsanna á Hafnargötunni eru beinlínis ljót. Til að fegra þessa verslunargötu Suðurnesja þarf að huga að heildinni. Það þarf að laga og fegra húsin sem standa við götuna. Það er ekki nóg að hola niður trjám og skreyta stéttar. Það er heildarmyndin sem skiptir máli.OG HVERNIG væri að koma fyrir menningarlegum reitum á Hafnargötuna? Kallinum er spurn af hverju þjónustumiðstöð ferðamála sé staðsett í bókasafninu. Væri ekki sniðugra að koma þessari nauðsynlegu skrifstofu fyrir á Hafnargötunni? Túristar leita til slíkra upplýsingaskrifstofa og án efa myndi það virka söluhvetjandi að staðsetja slíka miðstöð nálægt verslunum. Kallinn efast um að útlendingarnir sem koma í Reykjanesbæ ákveði að leigja sér bók þegar þeir loksins finna upplýsingamiðstöð ferðamála. Þeir gætu hinsvegar ákveðið að kaupa sér föt, listaverk eða pylsu og kók ef skrifstofan væri staðsett nálægt verslunum. Og einmitt þannig lifnar líf á Hafnargötunni.

FRJÁLSLYNDI flokkurinn hefur fína stefnu í sjávarútvegsmálum, en hvaða stefnu hefur hann í öðrum málum? Af málflutningi forsvarsmanna flokksins að dæma hefur ekki verið mörkuð stefna í öðrum málaflokkum. Gunnar Örlygsson forsvarsmaður Ungra Frjálslyndra skrifar kostulega grein í Vestmannaeyjablaðið Fréttir frá 6. febrúar sl. Greinin ber yfirskriftina „Hrói höttur - Bréf til unga fólksins“ og segist höfundur ætla að skrifa um mannauðinn og sjávarauðlindina - sem hann kallar tvær mikilvægustu auðlindir okkar. Hann minnist varla á mannauðinn, heldur skammast út í Sjálfstæðisflokkinn og Hannes Hólmstein Gissurarson og kennir kvótakerfinu og hringamyndun í atvinnulífinu um slæm kjör unga fólksins. Í lok kaflans um mannauðinn segir hann helsta markmið Frjálslynda flokksins að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Síðari hluti greinarinnar fjallar síðan um helsta baráttumál flokksins - afnám kvótakerfisins. Ef að málflutningur forsvarsmanna flokksins verður á þessa leið er barátta þeirra vonlaus. Það þarf heildstæða stefnu í öllum helstu málum. Kallinn hvetur alla til að lesa þessa grein því hún lýsir fátæklegri hugmyndafræði F-flokksins á ansi góðan hátt.

FRÁBÆRT að Suðurstrandarvegur sé nú væntanlegur, en er engin kosningalykt af þessu? Sjáið til - nú munu þingmennirnir koma í hrönnum og segja að nú sé verið að vinna bug á atvinnuleysinu. En hverjir fá þessa vinnu? Eru það konur? Eru það kannski bara gröfu- og vörubílakallar?

KRISTJÁN Pálsson fær aldrei leyfi miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins til að bjóða fram undir merkjum DD. Það er ljóst. En Kristján á að sjálfsögðu að bjóða fram sérframboð og það er trú Kallsins að hann myndi ná inn á Alþingi. Það er staðreynd að Kristján er að týna töluvert af atkvæðum af Sjálfstæðisflokknum og það fer í „pirrurnar“ á forsvarsmönnum flokksins. Það var farið illa með Kristján af kjörnefndinni og nú er rétti tíminn til að hefna alls þess sem á hans hlut var gert í óþökk kjósenda. Forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þurfa að skilja það að það er ekki farið illa með menn sem hafa starfað um árabil fyrir flokkinn og njóta virðingar kjósenda. Kristján - sprengdu þig inn á þing!

MÖGULEIKAR Kristjáns eru náttúrulega gríðarlegir því hann getur komist í ríkisstjórn. Miðað við síðustu skoðanakönnun Fréttablaðsins fær Samfylkingin 29 þingmenn og ef það yrði niðurstaða kosninganna þyrfti ekki nema 3 menn til að mynda meirihluta. Kristján kæmi þar sterkur inn og hugsanlega 2 frjálslyndir. Semsagt ríkisstjórn sérframboðs Kristjáns Pálssonar, Samfylkingar og Frjálslynda flokksins.

FRÁBÆRT framtak hjá Samkaupsmönnum að ætla í samkeppni við Bónus í Reykjavík. En þurfa þeir ekki að líta sér aðeins nær? Með tilkomu Bónuss að Fitjum er ljóst að gríðarleg samkeppni verður á milli Kaskó og Bónuss. Samkaupsmenn eru greinilega tilbúnir í þá baráttu, en mikilvægt er að hlúð verði Kaskó búðinni og leiðir farnar sem viðskiptavinirnir verða ánægðir með. Og án efa munu Samkaupsmenn standa sig fyllilega í þeim efnum. Áfram Kaskó!

Kveðja, [email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024