Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kallinn á kassanum
Fimmtudagur 23. október 2003 kl. 16:27

Kallinn á kassanum

NÚ ERU JAPANIR að skoða möguleika á því að reisa einhverskonar álþynnuverksmiðju í Helguvík. Reyndar koma aðrir staðir til greina, en þeim hlýtur að lítast best á Helguvíkina. Þar er allt á fullu og áreiðanlega mjög traustvekjandi fyrir þá að sjá hve framkvæmdir ganga vel. Helguvíkursvæðið á gríðarlega möguleika fyrir sér hvað varðar uppbyggingu iðnaðar og í huga Kallsins er ekkert vafamál að þar eiga eftir að rísa tugir iðnaðarfyrirtækja.

VILJA NÁGRANNASVEITARFÉLÖGIN ekki taka þátt í uppbyggingu svæðisins? Kallinn er harður sameiningarsinni og vill sjá öll sveitarfélög á svæðinu sameinast í eitt öflugt sveitarfélag. Með alþjóðaflugvöll, stórskipahöfn og framtíðariðnaðarsvæði eiga Suðurnes möguleika á því að verða eitt öflugasta svæði landsins, með fjölbreyttri atvinnustarfsemi.

HVAÐ ÆTLI það sé langt þangað til farið verður að byggja ýmiskonar þjónustufyrirtæki við Reykjanesbrautina? Kallinn hefur grun um að það gerist á næstu árum.

UPPBYGGINGARMÖGULEIKAR á Suðurnesjum eru gríðarlegir og stjórnendur nágrannasveitarfélaganna hljóta að sjá þá eins og annað fólk - en nóg um sameiningartal.

KALLINN HEIMSÓTTI að sjálfsögðu hátíðina í Garðinum um helgina. Mikilvægt að halda upp á 95 ára afmælið því án efa verður það síðasta stórafmælið sem sveitarfélagið heldur - sameining hlýtur að vera á döfinni.

FRAMKVÆMDIR VIÐ Reykjanesbrautina ganga vel og brautin á eftir að verða glæsileg. Kallinn hins vegar spyr sjálfan sig þeirrar spurningar af hverju brautin verði ekki kláruð í einum rykk? Hvar eru nú þingmennirnir okkar til að berjast fyrir þessum málum? Þeir verða að þrýsta á að framkvæmdir haldi áfram og að breikkunin verði kláruð einfaldlega vegna þeirrar ástæðu að fimm einstaklingar hafa látist í bílslysum á brautinni á þessu ári.

KRISTJÁN Pálsson er aftur genginn til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Er það grín eða hvað? Ætli hann hafi verið svo utanveltu án þess að vera í flokknum? Að mati Kallsins hefur hann tekið töluvert niður fyrir sig - hann átti að halda áfram að vera sjálfstæður, þó ekki með því að ganga í flokkinn aftur. Ótrúleg þessi tækifærispólitík!

KALLINUM hafa borist árnaðaróskir fyrir að vera farinn aftur af stað með pistlana og þakkar hann fyrir það. Nú er bara að senda áhugaverð mál á Kallinn sem hann getur skoðað.

ÁFRAM Suðurnes!

Kveðja, [email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024