Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 5. desember 2002 kl. 10:28

Kallinn á kassanum

UM LÁTNA EINSTAKLINGA eru skrifaðar minningargreinar og nú þegar búið er að taka Kristján Pálsson alþingismann af lífi út frá pólitísku sjónarhorni vill Kallinn á kassanum heiðra minningu hans. Kristján Pálsson sat í 8 ár á alþingi og á þeim tíma barðist hann fyrir Suðurnesjamenn, bæði í stórum málum og smáum - hann var svo sannarlega þingmaður Suðurnesja! Megi hann hvíla í friði og Kallinn óskar honum velfarnaðar í hverjum þeim störfum sem hann tekur sér fyrir hendur.
ANDSTÆÐINGAR Kristjáns ganga nú brosandi um götur Suðurnesja og láta rigna upp í nefið á sér fyrir það eitt að hafa farið eftir því sem þeim var sagt að gera. Kallinn á kassanum hefur heimildir fyrir því að „plottið“ í kringum það að koma Kristjáni út hafi verið skipulagt frá upphafi og fyrirmæli voru látin út ganga um að koma honum út. Það er nú meira hvað fulltrúar á þessum fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi voru sjálfstæðir í skoðnunum. Þetta eru einstaklingar sem hugsa og taka ákvarðanir af sjálfsdáðum - finnst ykkur það ekki annars?

KALLINN Á KASSANUM óskaði eftir viðbrögðum frá Bæjar- og sveitarstjórum á Suðurnesjum við hugmyndum Kallsins um aukna verðmætasköpun í Sjávarútvegi á Suðurnesjum. Engin viðbrögð hafa borist frá stjórunum og lýsir það áhugaleysi þeirra á þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar. Kallinn hefur annars fengið ágætis viðbrögð við þessum hugmyndum, en það er greinilegt að aðrar stoðir sveitarfélaganna en stoðir stjóranna, þurfa að taka þessar hugmyndir upp. Greinilegt er að stjórarnir hafa svo mikið að gera í öðrum verkefnum að þeir sjá sér ekki fært að upplýsa almenning og íbúa Suðurnesja um viðbrögð við þessum hugmyndum. Nú ákallar Kallinn á kassanum fulltrúa minnihluta í bæjar- og sveitarstjórnum Suðurnesja um viðbrögð þeirra við þessum hugmyndum. Þeir hafa kannski meiri áhuga á því að auka verðmæti í sjávarútvegi á Suðurnesjum en stjórarnir. Viðbrögð fulltrúa minnihlutanna munu birtast í næsta blaði og Kallinn vonar að viðbrögð þeirra verði önnur en stjóranna.

HIN KEFLVÍSKA Guðbjörg Glóð sem rekur fiskbúðina Fylgifiska er í samstarfi við Samkaup að hefja sölu á tilbúnum fiskréttum, fullunnum fyrir viðskiptavini Samkaupa. Svona á að vinna fiskinn. Búa til verðmæti - en ekki vera í þessum fornaldarhugsanagangi að senda allan fisk óunninn erlendis. Kallinn óskar Guðbjörgu alls hins besta í þessari viðleytni sinni og hvetur íbúa Suðurnesja að kaupa fiskréttina hennar. Um leið hvetur Kallinn íbúa Suðurnesja til að hugsa um það hve mikil verðmæti væri hægt að skapa með því að fullvinna sjávarafurðir á Suðurnesjum. Flugvöllurinn er við bæjardyrnar og hann er glugginn út í hinn stóra heim. Þið í minnihluta bæjar- og sveitarstjórna - hugsið um þetta líka!

ÍÞRÓTTAFÓLK í Reykjanesbæ hefur haft samband við Kallinn og lýst yfir furðu sinni á því að pólitíkusarnir séu hættir að mæta á íþróttaleiki. Þeir mættu á alla leiki, tóku í hendina á sem flestum og sátu á fremsta bekk fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, en hvar eru þeir nú? Þeir mæta þegar íþróttahús eru opnuð - en ekki á leiki. Skrýtið!

ÍSLENDINGAR eru stundum ótrúlega miklar gungur. Þessa dagana er verið að hækka allan fjandann og íbúar þessa lands segja ekki orð! Kallinn segir nei við þessum hækkunum.

HVAÐ er nú þetta - Kallinn hnaut við þegar hann heyrði að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra væri vinsælasti ráðherra landsins. Hann er náttúrulega orðinn þingmaður Suðurnesja. Drekkum malt.

HR. JÓN heilbrigðisráðherra hefur gert skyldu sína í læknadeilunni og nú er loksins farið að sjá fyrir endann á þessu ástandi. Það er bara vonandi að allir læknarnir snúi aftur til starfa.

ENN VILL Kallinn á kassanum óska eftir tölvupósti um áhugaverð málefni. Kallinum hefur borist fjöldi skeyta og er hann ánægður. En mikill vill meira og því vill Kallinn hvetja íbúa Suðurnesja til að senda póst á netfangið: [email protected].

Lifið heil,
Kallinn
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024