Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Föstudagur 24. janúar 2003 kl. 16:19

Kaldar kveðjur

Í fréttaskoti blaðsins á heimasíðu þess þann 11. janúar s.l. var birt grein eftir fyrrverandi lækni í Grindavík Jón Benediktsson. Þar sem rangt er farið með nokkur atriði í greininni vill undirritaður koma athugasemdum á framfæri.Þegar allt útlit var fyrir að heimilislæknar á Suðurnesjum myndu hætta störfum hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ákvað meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur að freista þess að leita leiða til að ekki yrði læknislaust í Grindavík. Með því að óska eftir viðræðum við Heilbrigðisráðuneyti um þjónustusamning um vinnu lækna til að byrja með og síðan mögulegan þjónustusamning á allri þjónustu heilbrigðistofnunnar.

Það er rangt sem fram kemur í grein Jóns að forráðamenn bæjarins hafi verið kallaðir í ráðuneytið að frumkvæði ráðuneytisins. Það var að frumkvæði bæjaryfirvalda sem sá fundur var haldinn. Þar lögðu forráðamenn bæjarins fram óskir um viðræður við ráðuneytið um yfirtöku heilsugæslunnar með þjónustusamningi við ráðuneytið.

Læknum hafði verið gert það ljóst að Grindavíkurbær ætlaði ekki að vera milliliður á milli læknafélagsins og ráðuneytisins í deilu þeirra, heldur snerust samningar annars vegar milli ráðuneytisins og hins vegar við lækna. Læknar þeir sem við áttum samningaviðræður við virðast hins vegar hafa litið öðruvísi á málin eins og síðar átti eftir að koma í ljós.

Samningar náðust við ráðuneytið um að greiða samkvæmt þjónustusamningi 1,8 stöðu lækna við heilsugæsluna í Grindavík sem var aukning um 0,3 stöðugildi, auk þess að greiða samkvæmt nýgengnum kjaradómi en þar eru laun yfirlæknis með “helgun” um 584 þús. á mánuði fyrir dagvinnu. Bærinn var tilbúinn til að greiða þessi laun sem verktakagreiðslu til yfirlæknis. Auk þess staðaruppbót sem hafði verið greidd sérstaklega af Grindavíkurbæ um 30% ofan á laun yfirlæknis og akstur til og frá vinnu sem almennt er ekki tíðkað á vinnumarkaði. Þannig gátu heildargreiðslur til yfirlæknis numið yfir 900 þús. á mánuði fyrir dagvinnu sem verktakalaun. Eins og áður segir var búið að ná samningum við ráðuneytið byggt á kröfum lækna en læknar ákváðu á síðustu stundu að setja fram nýjar kröfur og þar með var samningsgrundvöllur brostinn.

Okkur finnst það vera heldur kaldar kveðjur sem bæjarfélagið fær fá fyrrverandi yfirlækni eftir þá fyrirgreiðslu sem bæjarfélagið hafði innt af hendi og sýnir viljaleysi yfirlæknis til að bera hag Grindvíkinga fyrir brjósti.

Bent skal á að Grindavíkurbær er ekki beinn aðili að þessum málum þar sem samkvæmt lögum fer Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með heilsugæslumál í Grindavík. Grindavíkurbær vildi hins vegar leggja sitt af mörkum til að leysa þann vanda sem upp var komin með gerð þjónustusamnings við ríkisvaldið hefði það verið nokkur kostur.

Það nýjasta í þessu máli er að til Grindavíkur er að koma til starfa nýútskrifaður heimilislæknir í fjóra mánuði til reynslu og vonum við að framhald verði á því til lengri tíma.


Með kveðju

Ólafur Örn Ólafsson
Bæjarstjóri Grindavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024