Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Kæru fjölskyldur á Suðurnesjum!
Þriðjudagur 26. júní 2007 kl. 13:01

Kæru fjölskyldur á Suðurnesjum!

Eruð þið til í spennandi og gefandi lífsreynslu? Ykkur býðst tækifæri til að auðga heimilislíf ykkar og flytja framandi menningu inn á heimili ykkar.Hvernig? Með því að opna heimili ykkar fyrir skiptinema á vegum AFS og leyfa honum að taka þátt í lífi og starfi fjölskyldunnar í 5 eða 10 mánuði.

Skiptinemarnir, sem koma úr öllum heimshornum, koma til Íslands um miðjan ágúst nk., Þeir eru á aldrinum 15-19 ára og eiga það sammeiginlegt að vilja kynnast íslenskri menningu og eignast íslenska fjölskyldu. Skilyrði sem fjölskyldan þarf að uppfylla eru hjartahlýja, sveigjanleiki og áhugi. Þið þurfið ekki að hafa heitan mat í öll mál, kunna ensku, vera heimavinnandi eða hafa börn eða unglinga á heimilinu. Þið skulið alls ekki undirbúa stanslausa skemmtidagskrá, því skiptineminn er ekki gestur heldur þátttakandi í ykkar dagsdaglega lífi. Sumar fyrrum fósturfjölskyldur hafa samt sagt að með því að hafa skiptinema, hafi ánægjulegum samverustundum fjölskyldunnar fjölgað. Hún hafi lagt meira upp úr því að gera hluti saman en ella og skiptineminn því auðgað fjölskyldulífið.

Skiptineminn lifir daglegu lífi líkt og aðrir unglingar, gengur í íslenskan framhaldsskóla, sinnir áhugamálum og eignast vini. Eini kostnaður fjölskyldunnar er fæði og húsnæði fyrir einn fjölskyldumeðlim í viðbót. Vasapeningur og fatnaður er á ábyrgð skiptinemans, AFS sér um sjúkrakostnað, skólagjöld og skólabækur. AFS veitir einnig stuðning fyrir fjölskylduna og nemann með neti sjálfboðaliða og starfsfólks skrifstofu.

Það er gaman að kynnast sínu eigin umhverfi upp á nýtt og sjá það með augum annara. Skiptinemarnir koma oft með skemmtilega sýn á hversdagslega hluti, og eru oft ótrúlega duglegir að læra íslensku.Við viljum endilega auka hlutfall fósturfjölskyldna á Suðurnesjum. Hér er gott að vera og við höfum margt upp á að bjóða. Einnig hefur Fjölbrautarskólinn verið sérstaklega jákvæður í þeirra garð, og styður vel við skiptinemana. Þið hafið engu að tapa en ýmislegt að vinna. Í versta falli öðlist þið mikilvæga og þroskandi lífsreynslu. Í besta falli eignist þið nýjan fjölskyldumeðlim frá framandi slóðum, þar sem gagnkvæm og djúp væntumþykja skapast og samskipti haldast árum saman, líkt og undirrituð þekkir af eigin reynslu.
Ef þið hafið áhuga á að vita meira, endilega hafið samband við undirritaða eða skrifstofu AFS á Íslandi, www.afs.is s. 5525450

Ingibjörg Ólafsdóttir,
[email protected]
6926360, sjálfboðaliði AFS á Íslandi og fyrrum skiptinemi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024