Kærar þakkir
Nýliðin kosningabarátta var stutt og snörp sem var að mörgu leyti mjög gott. Baráttan var gefandi og skemmtileg allt fram á síðustu stundu. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þann stuðning og traust sem kjósendur hafa sýnt okkar öflugu frambjóðendum. Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann nótt sem dag að því að styrkja og treysta kjarnann. Á brattann var að sækja allt fram á síðustu stundu en ómetanleg er sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar, alls staðar á landinu. Það er ekki sjálfgefið að slík samvinna og samkennd verði til svona skömmum tíma.
Uppbygging er hafin
Ég vil þakka öllum þeim sem lögðu fram óeigingjarna vinnu og settu svip sinn á kosningabaráttuna, en hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er hjá flokknum. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofunni eða baka kökur, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina.
Þá vil ég þakka fyrir góðar móttökur frá öllum þeim sem tóku á móti okkar frambjóðendum og sýndu málefnum okkar áhuga.
Það var einkar ánægjulegt að sjá hve mikið af nýju og kraftmiklu fólki bættist við í okkar góða hóp, sérstaklega ungt fólk. Því vil ég þakka skýrri málefnalegri sýn.
Ganga þarf rösklega til verks. Leysa þarf húsnæðismálin fyrir unga jafnt sem aldna, efla heilbrigðismálin, menntamálin og samgöngur vítt og breitt um landið. Við munum fylgja málefnum okkar eftir af miklum krafti og leggja okkar af mörkum til stöðugs stjórnarfars og bættra lífskjara um allt land.
Samhliða málefnalegum áherslum þá er krafa kjósenda okkar um að stjórnmálamenn axli meiri ábyrgð. Menn þurfa að þora að treysta, finna leiðir í erfiðum málum og vinna saman af heiðarleika. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er jafnframt að hlusta, skilja og virða. Þannig öðlumst við traust. Getum við ekki öll verið sammála um það?
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.