Kær kveðja frá Byrginu til Suðurnesjamanna
Mig langar til að þakka íbúum Suðurnesja og eigendum fyrirtækja fyrir frábæran stuðning í þau fjögur ár sem Meðferðarheimilið Byrgið var í Rockville. Mörg þeirra fyrirheita sem til okkar Byrgismanna voru töluð brugðust, það er menn brugðust fyrirheitunum, sem þeir höfðu gefið okkur á leið til Suðurnesja, en þið kæra Suðurnesjafólk bættuð það upp með mikilli velvild til starfsins.Mig langar að þakka skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Hr. Ólafi Jóni Arnbjörnssyni og kennurum skólans fyrir þeirra þátt í því að mennta þá sem í Byrginu voru tvö síðustu árin í Rockville. FS tók þannig þátt í átaki Byrgisins og KFM sem ber yfirskriftina “ Gegn eitri í æð” og Suðurnesjamenn geta verið stoltir af sínu framlagi. Einnig langar mig að nota þetta tækifæri til að þakka eigendum og starfsfólki Víkurfrétta, vf.is fyrir frábæra umfjöllun um starfsemi Byrgisins í fjögur ár. Sérstaklega nefni ég þá Pál Ketilsson, Hilmar Braga, Jóhannes fréttamann og færi ég þeim þakkir fyrir, með fréttaflutningi þeirra og velvild til Byrgisins, hefur orðið til heimildaskrá um starfsemi Byrgisins, sem birt er á heimasíðu okkar www.byrgid.is með góðfúslegu leyfi Víkurfréttamanna. Þess má líka geta að þetta fréttablað Suðurnesja, auðveldaði okkur að kynnast og komast nær Suðurnesjabúum, sem eins og áður sagði, reyndust okkur afar vel, á meðan við dvöldum í Rockville. Á stundum fannst mér að ég væri Suðurnesja-búi frekar en Hafnfirðingur, vegna þess hve Keflavíkingar tóku okkur vel, og í annan stað vegna þess, hversu vel vf.is tengir lesendur sína við Suðurnesin, með fréttunum sem birtast í vikublaðinu Víkurfréttum og á heimasíðu þeirra, www.vf.is
Guðmundur Jónsson.
forstöðumaður Byrgisins.
Guðmundur Jónsson.
forstöðumaður Byrgisins.