Jórunn sækist eftir 2. Sæti hjá VG
Nú í gjörbreyttu samfélagi og í aðdraganda kosninga hefur ungt fólk í auknum mæli sýnt það og sannað að það eigi fullt erindi í það verkefni sem framundan er hjá nýrri ríkisstjórn. Þess vegna og hef ég ákveðið að bjóða mig fram í 2. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í forvali í Suðurkjördæmi til Alþingiskosninga 2009.
Ég, Jórunn Einarsdóttir, er 34 ára og er dóttir Einars Friðþjófssonar og Katrínar Freysdóttur. Ég hef búið í Vestmannaeyjum nær alla mína tíð en bý nú í Kópavogi þar sem við hjónin erum í námsleyfi. Ég er kennari að mennt en stunda mastersnám í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands. Samhliða því kenni ég í Hvammshúsi í Kópavogi sem er sérúrræði fyrir unglinga í 9. og 10.bekk Ég gekk í flokkinn haustið 2006 og skipaði 6.sæti listans í Alþingiskosningunum árið 2007. Þar kviknaði neistinn og áhugi minn á pólitísku starfi fyrir alvöru.
Ég hef trú á því að nú sem aldrei fyrr sé þörf fyrir ný gildi og nýja stefnu í íslensku þjóðfélagi þar sem jöfnuður manna á milli muni stuðla að aukinni farsæld til handa okkur öllum, ungum sem öldnum. Jöfnuður sem stuðlar að auknu frelsi einstaklinga til athafna hvar sem þeir eru staddir hverju sinni. Maki minn er Ágúst Óskar Gústafsson, 34 ára læknir og saman eigum við tvö börn, Eyþór 7 ára og Katrínu Söru bráðum 5 ára.