Jón Gunnarsson sækist eftir 1. sæti í Suðurkjördæmi
Jón Gunnarsson alþingismaður hefur ákveðið að sækjast eftir því að leiða framboðslista í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi vegna kosninga til Alþingis í vor. Segir Jón að þessi ákvörðun sé tekin að vel athuguðu máli og eftir samráð og hvatningu margra félagsmanna í Samfylkingunni víðs vegar um kjördæmið.
„Ákvörðun um að sækjast eftir 1. sæti er tekin í kjölfar þess að Margrét Frímannsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi forystu á framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu. Ég hef í þremur kosningum leitt framboðslista til sigurs í sveitarstjórnarkosningum, starfað lengi við rekstur og stjórnun fyrirtækja og nú síðast setið á Alþingi frá árinu 2003. Þar hef ég setið fyrst í Fjárlaganefnd og síðan í Sjávarútvegs- og Utanríkismálanefnd þingsins," að því er segir í tilkynningu frá Jóni.
Af www.mbl.is