Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jón Bö á bók
Mánudagur 14. september 2009 kl. 09:26

Jón Bö á bók

Íslendingasögur er arfurinn sem lengst af hefur haldið þjóðarvitund okkar uppi á erfiðum tímum. Sá nútímamaður sem mest hefur gert til þess að kynna samtíðarfólki sínu þennan mikilvæga þjóðararf er Jón Böðvarsson íslenskufræðingur. Það hefur hann meðal annars gert með afar fjölsóttum námskeiðum þar sem hann tók fyrir fornsögur þær sem ástsælastar hafa verið með þjóðinni um aldir.

Nú er senn að koma út viðtalsbók við Jón Böðvarsson, rituð af Guðrúnu Guðlaugsdóttur blaðamanni og rithöfundi. Þar rekur Jón sitthvað fróðlegt um æsku sína og uppvaxtarár og margt forvitnilegt hefur hann að segja um menn og málefni. Jón tók ríkan þátt í félagslífi á skólaárum sínum, gerðist landvörður og leiðsögumaður. Auk þess var hann efnilegur íþróttamaður og góður skákmaður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jón snerist ungur til róttækni í stjórnmálaskoðunum og tók af krafti þátt í starfi Æskulýðsfylkingar og Sósíalistaflokks. Hann hefur hvorki legið á liði sínu né skoðunum þar fremur en annars staðar. Margir eiga endurminningar um litríka kennslu Jóns í íslensku og bókmenntum frá farsælum kennsluferli hans og eru þá ótalin störf hans sem skólameistari og ritstjóri Iðnsögu Íslendinga, sem hann sjálfur telur eitt sitt helsta viðfangsefni.

Þá mun Jón, á sinn einstaka hátt, bera saman ástandið á Íslandi hér og nú við Sturlungaöldina. Vafalítið kemur þar eitt og annað á óvart.

Bókaútgáfan Hólar gefur bókina út í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands. Hafa aðstandendur bókarinnar með þessu framtaki ákveðið að þakka Jóni Böðvarssyni fyrir framlag hans til varðveislu íslenskra fornsagna og verður af þeim sökum sérstakur ÞAKKARLISTI aftast í bókinni. Þar geta þeir sem kaupa bókina í forsölu fengið nafn sitt skráð, en verð til þeirra verður kr. 5.700 (sendingargjald innifalið).

Hægt er að kaupa bókina í forsölu og skrá sig á ÞAKKARLISTANN í netfanginu [email protected] og í síma 5811964 og 698-6919.