Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jólin nálgast: Velferðarsjóðurinn blæs til nýrrar sóknar
Föstudagur 2. desember 2011 kl. 10:05

Jólin nálgast: Velferðarsjóðurinn blæs til nýrrar sóknar

Margt hefur unnið gegn okkur Suðurnesjamönnum undanfarið og þarf ekki að orðlengja það frekar. Við höfum hins vegar skynjað styrkleika okkar á mörgum sviðum og samstöðu sem er dýrmætari nú en nokkru sinni fyrr.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fólk hér á svæðinu og velunnarar þess hafa sýnt þeim sem mest á því þurfa að halda samstöðu og kærleika. Velferðarsjóðurinn á Suðurnesjum hefur verið farvegur fyrir slíkan stuðning. Sjóðurinn veitir á þriðja tug barna máltíðir á mánuði hverjum auk þess sem fjöldi ungmenna fær stuðning fyrir íþróttir og tómstundir. Þá mætir sjóðurinn kostnaði við nám, s.s. skólagjöld og námsgögn auk skólaferðalaga. Sjóðurinn greiðir fyrir læknisþjónstu og mætir öðrum grunnþörfum. Aðstoð á ýmsum tímamótum, s.s. fermingum er þáttur í starfsemi hans. Lögð er áhersla á að fjármagnið nýtist í heimabyggð og hefur samstarf við verslunareigendur á svæðinu verið gott. Loks ber að geta aðkomu sjóðsins að fræðslu og stuðningi við atvinnuleitendur.

Á þessu ári hafa framlög til sjóðsins numið 2,8 milljónum en útgjöld nema tæpum þremur milljónum. Kostnaður við utanumhald og stjórnun er í algjöru lágmarki og má fólk treysta því að gjafir þess nýtist til fullnustu.

Nú rennur upp tímabil þar sem er þörf á framlögum í sjóðinn. Fólk er hvatt til þess að gefa honum gaum, einkum á komandi vikum. Ekkert endurspeglar siðferðiskennd okkar betur en umhyggjan í garð náungans. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis hefur riðið á vaðið og gaf nú nýverið 800 þúsund kr. í formi gjafakorta í Nettó. Um leið og við blásum til nýrrar sóknar eru stéttarfélaginu færðar þakkir fyrir þeirra rausnarlega framlag.

Hægt er að leggja framlög inn á reikning Velferðarsjóðs 0121-05-1151 kt. 680169-5789.

Stjórn Velferðarsjóðs Suðurnesja

Hannes Friðriksson
Ólafur Magnússon
Rúnar Helgason