Jólakveðja frá oddvita Suðurkjördæmis
Hefðir og fjölskylduvenjur móta jólin og jólahaldið. Þessi tími, dimmasti árstími hefur djúpa merkingu fyrir okkur flest. Við segjum gjarnan að þetta sé tími barnanna og það er mikið til í því. Jólin eru þó tími okkar allra og við fögnum hvert með okkar hætti. Á Suðurnesjum var þess löngum beðið að fjölskyldufeður kæmu heim af sjó en þá fyrst hófust jólin á mörgum heimilum. Í Keflavík hefur alltaf verið mikil verslun og er enn. Ég get rétt ímyndað mér að það sé hluti af jólastemmningunni að rölta Hafnargötuna, kíkja í búðir og kaupa jólagjafirnar. Segja má að aðventan, þessi yndislegi upptaktur að jólum, sé nú til dags hátíð út af fyrir sig. Vinir og ættingjar koma saman á köldum desemberdögum, gleðjast og njóta samveru. Þannig á það að vera.
Líf okkar tekur stöðugum breytingum og jólin minna okkur oft á það sem var, er ekki lengur og verður aldrei aftur. Þessi tími er því erfiður mörgum og þá sérstaklega þeim sem eiga um sárt að binda. Hugurinn leitar ósjálfrátt til þeirra sem misst hafa ástvini á árinu og horfa nú til hátíðanna með kvíðahnút í maga og sorg í hjarta. En jólin gefa okkur líka tækifæri til að heiðra minninguna enda leitar hugurinn nær alltaf í minningabankann á þessum árstíma. Við leitumst við að endurskapa minningar úr æsku okkar á hverju einasta ári og endurupplifa liðna tíð á fallegan máta.
Árið hefur verið viðburðarríkt í mínu persónulega lífi. Það var mikil ákvörðun fyrir mig að taka í upphafi árs að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Árangurinn varð eins og að var stefnt og er ég ykkur öllum ævarandi þakklát fyrir ykkar hvatningu og stuðning. Án þess væri ég ekki nú þingmaður ykkar á hinu háa Alþingi. Markmiðið er þó alltaf skýrt og það er að vera öflugur fulltrúi Suðurkjördæmis og ýta áfram þjóðþrifaverkum fyrir kjördæmið, sem og landið allt.
Ríkisstjórn hefur verið mynduð og mér hafa verið falin margvísleg trúnaðarstörf fyrir Sjálfstæðisflokkinn á þingi. Ríkisstjórnin hefur mótað stefnu næstu fjögur árin þar sem leiðarstefið er að efla atvinnulífið og byggja upp nýjar atvinnugreinar sem eru reistar á þekkingu og nýsköpun. Við Íslendingar erum að koma mun betur út úr efnahagsáfallinu sem tengt er heimsfaraldri Covid19 og því er ástæða til að horfa bjartsýn fram um veg. Verkefnin eru áfram ærin en við munum sjá sterkari og betra samfélag á næstu árum, það er bjargföst trú mín.
Kæru vinir. Nú gengur í garð tími kærleika og vináttu. Njótum hans saman. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Guðrún Hafsteinsdótttir,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.