Jólakveðja frá bæjarfulltrúum Framsóknar í Suðurnesjabæ
Jólahátíðin nálgast enn á ný og allt sem henni fylgir. Íbúar og fyrirtæki skreyta hátt og lágt, jólatónlistin ómar, ungum sem öldnum fer að hlakka til að opna pakka og borða góðan mat með fjöldskyldu og vinum.
Það er því við hæfi að líta yfir farinn veg en árið hefur verið viðburðaríkt og þar má nefna sveitastjórnarkosningar sem fóru fram þann 14. maí 2022. Árangurinn sem við í Framsókn náðum í Suðurnesjabæ var sá sem stefnt var að í upphafi og erum við öllum ævinlega þakklát fyrir góða hvatningu og stuðning. Án þess værum við einfaldlega ekki bæjarfulltrúarnir ykkar í Suðurnesjabæ. Markmið okkar er og hefur alltaf verið skýrt og það er að vera öflugir bæjarfulltrúar í Suðurnesjabæ ásamt því að vera hreyfiafl framfara í samfélaginu.
Eftir kosningar mynduðu svo B listi og D listi meirihluta í bæjarstjórn Suðurnesjabæjar. Meirihlutinn hefur mótað stefnu með málefnasamningi næstu fjögur árin þar sem leiðarstefið er að efla samfélag í sókn, byggja upp innviði og tryggja lóðarframboð í Suðurnesjabæ. Ásamt því að stuðla að góðum rekstri sveitarfélagsins og tryggja fjárhagslegt sjálfstæði Suðurnesjabæjar. Þjóðin er að koma mun betur út úr efnahagsáfallinu sem tengt er heimsfaraldri Covid19 en gert var ráð fyrir, það eru þó krefjandi tímar þessa stundina þar sem verðbólga er um 10% og stýrivextir hafa ekki verið hærri í 12 ár. Einnig má nefna óvissuna tengda kjarasamningum. Við munum þó ávallt horfa bjartsýn á framtíðina, með það á leiðarljósi að við horfum á það sem samfélagslegt verkefni saman að kveða niður verðbólgu og horfum björt fram á veginn.
Það er friðsælt og fallegt á Íslandi og fátt fallegra en desemberkvöld í froststillum eins og hafa verið á undanförnu, að horfa á stjörnubjartan himinn og sjá jafnvel norðurljósin skína.
Kæru íbúar, nú gengur í garð tími kærleikar og vináttu. Njótum hans saman, við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Anton Guðmundsson
og Úrsúla María Guðjónsdóttir,
bæjarfulltrúar Framsóknar
í Suðurnesjabæ.