Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Jólakveðja
  • Jólakveðja
Fimmtudagur 25. desember 2014 kl. 19:48

Jólakveðja

Jólin er komin enn einu sinni og þessi hátíð ljóss og friðar vekur oft upp hinar ýmsu vangaveltur um lífið og tilveruna.

Jólahefðir eru margar og misjafnar og einmitt á þessum tíma sem við þurfum að gæta okkur á að fara ekki í viðmið við aðra. Jólin eiga ekki að vera á ákveðin hátt og þrátt fyrir góðar hefðir og siði þá getum við þurft að endurskoða og aðlaga okkur að öðruvísi jólum. 

Ég hef þurft að skoða hvað það er sem skipti mig máli í lífinu og finna svo út hvernig ég get fylgt því eftir. Ég hef líka þurft að skoða hvernig ég get aðlagast nýjum og öðruvísi jólum til að halda í gleðina sem skiptir mig svo miklu máli. Jólin og áramótin eru tími sem er gott að skoða þessa hluti, hvað er ég sátt við, hverju vil ég breyta og hvað þarf ég að gera til að koma þessum breytingum á. En stundum þörfnumst við leiðsagnar og það er styrkur að viðurkenna að maður ráði kannski ekki við hlutina. Það er ekki efi í mínum huga að ef maður opnar fyrir leiðsögn annarra varðandi lífið og tilveruna, þá koma leiðbeiningarnar til okkar – svo framalega sem við tökum á móti. Stundum er það nú bara þannig að það eru öll ljós slökkt og enginn heima, en þau tímabil eru hluti af þessu heildarferli sem lífið er.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég var einmitt að vandræðast með þennan pistil – nú hef ég tekið að mér nýtt hlutverk og hvað er þá viðeigandi að setja frá sér? Ég ákvað að fylgja því sem ég tel vera rétt og senda frá mér sama pistil og ég sendi inn í Hamingjuhornið mitt – ég hét jú sjálfri mér og ykkur því að þrátt fyrir nýtt hlutverk mundi ég passa að halda í sjálfa mig en það er í raun mikilvægasta loforðið hvort sem ég eða aðrir eiga í hlut. 

En við mættum örugglega vera duglegri að hlusta á okkar innri rödd og fylgja þeim skilaboðum sem koma til okkar og þar er ég enginn undantekning. Við getum líka aukið jákvæðu skilaboðin með því að velja að vera í kringum fólk sem hvetur okkur áfram. Við getum valið að umvefja okkur meira með öllu því fallega sem heimurinn hefur upp á að bjóða og öllum þeim litlu hlutum sem gera lífið svo einstakt. Þessar tilfinningar koma sterkt til mín í kringum jólahátíðina – og ég vil varðveita þær því ég hef líka átt tímabil þar sem jólin voru erfið og mér fannst heimurinn hvorki sanngjarn né skilningsríkur.

 Hugur minn er hjá öllum þeim fjölda sem fer nú í gegnum erfiða tíma vegna missis á árinu, eigin veikinda eða annarra áfalla. Fyrir okkur sem stöndum til hliðar og viljum leggja eitthvað af mörkum getur verið gott að lána von þegar viðkomandi upplifir vonleysi. Að vera vonarberi á erfiðum tíma þýðir að við erum til staðar fyrir þann sem er á vonarvöl. Við viðurkennum vanmátt viðkomandi á sama tíma og við gefum von um betri tíð með nærveru okkar og kærleika. Með því að gefa af okkur sjálfum og styðja við bakið á hvort öðru erum við hluta af þessari keðju sem er svo mikilvæg og má ekki slitna - kærleikskeðjan. Stundum þurfum við bara að fá að vera þar sem við erum og þá eru vonarberar besti félagsskapurinn því þeir átta sig á að kröfur samfélagsins eru oft á skjön við það sem við erum að upplifa þegar við erum á þessum stað. 


Gunnar Hersveinn orðaði þetta svo fallega: Þau sem bera von fyrir aðra og eru vonarberar samfélags, eru einnig fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun.



Kæru Suðurnesjamenn, óska ykkur gleðilegra jóla og megi ljós kærleika og friðar verma hjörtu ykkar yfir hátíðirnar!

Anna Lóa Ólafsdóttir
Eigandi Hamingjuhornsins og forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ