Jói útherji og sjálfsmörkin
Ómar Ragnarsson söng hér um árið um Jóa úherja, knattspyrnumanninn sem þrátt fyrir viðleitni náði aldrei árangri og var svo ólánssamur að setja boltan eingöngu í eigið mark. Mér kom í hugann “ Jói útherji” þegar ég las grein oddvita minnihlutans Jóhanns Geirdal sem birtist í Víkurfréttum þann 25. maí síðastliðin.1. Sjálfsmarkið.Óumdeilt er að í upphafi bréfs utanríkisráðuneytisins stendur “Ráðuneytið bíður Reykjanesbæ landið á leigu .....” Það liggur því í hlutarins eðli að taki Reykjanesbær við neðra Nikkel svæðinu á þeim kjörum sem ráðuneytið tilgreinir þarf að gera um það leigusamning. Á það þarf síðan að reyna í viðræðum við ráðuneytið. Þetta er það sem fram kemur í viðtali við mig í Víkurfréttum 18. maí. Jóhann kýs hins vegar að leggja mér í munn orðaval fréttamanns á forsíðu um “ fyrirliggjandi samning”.2. Sjálfsmarkið.Oddviti minnihlutans rekur eins og í sögubók aðdraganda að ofangreindu viðtali við mig vegna neðra Nikkel svæðisins. Rétt skal vera Rétt. Um hádegisbil á miðvikudaginn 17. maí hringir blaðamaður frá Víkurfréttum í mig og spyr hvort “ eitthvað sé að frétta varðandi svæðið, greinar hafi birst í blaðinu síðustu vikur og ein slík væri í blaðinu á morgun frá Heilbrigðiseftirlitinu”. Af sjálfsögðu ber mér skylda til þess að gera grein fyrir því sem þá var orðið opinbert mál, og ef þú Jóhann Geirdal hefðir lesið viðtalið með öðrum gleraugum en þeim pólitísku er í viðtalinu gætt nærgætni og lögð áhersla á hreinsun svæðisins.3. SjálfsmarkiðEnn og aftur talar oddviti minnihlutans um slæma fjármálastjórn Reykjanesbæjar. Það er reyndar sami oddvitinn sem situr með mér og Böðvari Jónssyni í mjög samhentum stýrihópi vegna einsetningar grunnskólanna. Þar erum við vikulega að leggja til mikil útgjöld sem á endanum verða líklega um 1.2 milljarðar. Þegar svo sami oddvitinn mætir á bæjarstjórnarfundi eða ritar greinar um fjármál skammast hann út í meirihluta bæjarstjórnar fyrir skuldasöfnun og óstjórn. Er nema vona að sjálfsmörkin hrannist upp.4. SjálfsmarkiðJóhann Geirdal kýs að nefna í grein sinni þá upphæð sem ráðuneytið tilgreinir í bréfi sínu fyrir hreinsunina. Ekki veit ég hversu heppilegt það var ef til kemur að hreinsun svæðisins verður boðin út. Oddvitinn kýs hins vegar ekki að nefna það að títt nefndu bréfi stendur að Reykjanesbæ býðst að “ framreikna hreinsunarkostnaðinn sem svarar ávöxtunarkröfu skulda sinna eða á bankakjörum sem leigutaki nýtur” og bætist þá sú upphæð væntanlega við þann tíma sem ekki þarf að standa skil á leigugjaldi til ráðuneytisins. Jafnframt skil ég erindi ráðuneytisins þannig að verði kostnaður minni njóti Reykjanesbær þess.5. SjálfsmarkiðJóhann Geirdal beitir í sinni grein þeirri lævísi að gera mál þetta allt hið tortryggilegasta og vænir mig um óheilindi. Lengi skal manninn reyna. Ég veit ekki til þess að þú hafir áður reynt mig af óheilindum Jóhann Geirdal og kýs ég því að líta á niðurlag greinar þinnar sem pólitísk ónot. Sjálfur mun ég áfram líta á þig sem góðan félaga í sama búning og ég. Ég mun því halda áfram að verja markið og fyrirgefa þér sjálfsmörkin. Því sigur er alltaf takmarkið í öllum leikjum.Skúli Þ. Skúlasson