Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jöfnun umönnunargreiðslna: Sama niðurgreiðsla hjá leikskólum og dagforeldrum
Laugardagur 31. ágúst 2013 kl. 07:14

Jöfnun umönnunargreiðslna: Sama niðurgreiðsla hjá leikskólum og dagforeldrum

Fyrir fund í bæjarráði Reykjanesbæjar 29. ágúst var lögð fram tillaga  Framsóknar í Reykjanesbæ þess efnis að jafna umönnunargreiðslu til systkina  sem dvelja hjá  dagforeldrum í Reykjanesbæ til jafns við þau sem eru í leikskóla.

Sömu reglur eiga að gilda
Nú er það svo skv. gjaldskrá leikskólanna eð greitt er fullt gjald fyrir fyrsta barn, hálft fyrir annað barn og ef um  þriðja og fjórða barn er að ræða þá greiða foreldrar ekkert gjald fyrir þau. Sömu reglur gilda hins vegar ekki fyrir systkini hjá dagforeldrum.  En það er réttlætismál  að sömu reglur gildi um systkini, hvort sem þau dvelja hjá dagforeldrum eða á leikskóla.

Hámark 75 þúsund á mánuði
Nú geta foreldrar sótt um umönnunargreiðslur að upphæð 35 þúsund krónur fyrir barn og nýtist sú upphæð til niðurgreiðslu til dagforeldra  þegar foreldrar fara aftur út á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi. Vistun hjá dagforeldri kostar víða um 85 þúsund krónur á mánuði fyrir 8 klst. vistunartíma á dag. Foreldrar greiða því um 50 þúsund krónur fyrir barn. Með þessum breytingum myndi  umönnunargreiðsla  vegna annars barna hjá dagforeldri þá hækka um 25 þúsund krónur, þannig að foreldrar greiða aðeins 25 þúsund fyrir annað barn hjá dagforeldri. Þannig foreldrar myndu þá greiða samtals 75 þúsund krónur á mánuði fyrir vistun systkina hjá dagforeldrum á mánuði, í stað 100 þúsund krónur, eins og kerfið er núna. Ef um er að ræða fleiri börn á sama tíma hjá dagforeldri þá myndi Reykjanesbær greiða dagvistunargjald að fullu. Þannig að hámarksgreiðsla foreldra yrði ekki meiri en 75 þúsund á mánuði.

Óverulegur kostnaðarauki
Samkvæmt upplýsingum frá fræðslusviði eru í dag 61 barn með systkinaafslátt á leikskólum Reykjanesbæjar og árlegur kostnaður við hann er 8.375.000.  Þessi hópur barna er á aldrinum 2 til 6 ára eða fjögurra ára tímabil. Samsvarandi tímabil hjá börnum á leikskólaaldri er hinsvegar um eitt og  hálft ár. Því má leiða líkum að því að upphæð sem þyrfti til aukinnar niðurgreiðslu fyrir systkini hjá dagforeldrum, verði rúmlega 3,1 milljón.

Bæjarstjóra hefur verið falið að vinna að málinu og afla upplýsinga, sem vonandi verður til þess að málið verði samþykkt í bæjarstjórn.

Kristinn Þór Jakobsson
bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024