Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Jöfnuður og réttlæti
Sunnudagur 25. maí 2014 kl. 09:00

Jöfnuður og réttlæti

Oddný G. Harðardóttir skrifar.

Á kosningavori vilja frambjóðendur koma stefnumálum sínum skýrt til fólksins í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Aðstæður eru mismunandi eftir landsvæðum og áherslur ólíkar eftir því hvað svæðin hafa upp á að bjóða. Alls staðar eiga þó grunngildi jafnaðarmanna við; frelsi, jafnrétti og bræðralag. Þessi góðu gildi jafnaðarmanna hafa verið mótuð af langri baráttu vinnandi fólks fyrir mannsæmandi lífskjörum, mannréttindum og velferð allra íbúa.

Undirstaða velferðarinnar er öflugt atvinnulíf. Þannig er þróun atvinnulífs samofið árangri sem náðst hefur í baráttu launamanna fyrir bættum kjörum og aðbúnaði. Fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf byggir á því að menntun, grunnþjónusta og stjórnsýsla standi einnig á styrkum stoðum. Góð nærþjónusta sveitarfélaga er því einn af stærstu hornsteinum fyrir blómlegt atvinnulíf og góð búsetuskilyrði. Afar mikilvægt er að sterkar raddir jafnaðarmanna heyrist sem víðast.  Ákvarðanir sem snerta daglegt líf bæjarbúa eiga að byggja á grunngildum jafnaðarmanna um réttlátara og betra samfélag.

Í okkar gjöfula landi byggja sterkustu atvinnugreinarnar á nýtingu auðlinda og náttúrugæða. Þess vegna er mikilvægt að um þá nýtingu gildi eðlilegar og heilbrigðar leikreglur. Þetta á við um ferðaþjónustuna, sem vaxið hefur stórkostlega undanfarin ár, fiskveiðar og fiskvinnslu og orkuframleiðslu. Umgjörðin sem Alþingi og sveitarfélög búa atvinnugreinunum og nýtingu auðlinda varðar okkur öll. Þar er lykilatriði að almannaheill, sjálfbærni og áætlanir til lengri tíma ráði ávallt för. Jafnvægi milli verndar og nýtingar, uppbygging innviða og réttlát skipting arðs er meðal þess sem langtíma stefnumótun þarf að taka tillit til.

Allar þessar atvinnugreinar skipta miklu og jákvæð þróun þeirra er undirstaða lífskjara. Því mega skammtímasjónarmið og dægurþras ekki ráða för þegar fjallað er um starfsumhverfi greinanna. Við berum ríka ábyrgð bæði gagnvart sjálfum okkur og komandi kynslóðum þegar kemur að umgengni um landið og nýtingu náttúruauðlinda. Þar má von um skyndigróða aldrei slá okkur blindu.

Árangur næst með baráttu og samstöðu um uppbyggingu samfélags sem byggir á góðum grunngildum jafnaðarstefnunnar. Ég hvet kjósendur á Suðurnesjum til að styðja jafnaðarmenn í sveitarstjórnarkosningunum í vor eða lista þar sem félagshyggjumenn sameinast.

Baráttukveðjur!

Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024